Hoppa yfir valmynd
6.5.2017
250 manns tóku þátt í flugslysaæfingu á Akureyrarflugvelli

250 manns tóku þátt í flugslysaæfingu á Akureyrarflugvelli

Um 250 manns tóku þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu sem haldin var á Akureyrarflugvelli í dag. Flugslysaæfingar sem þessar eru haldnar á fjögurra ára fresti á hverjum áætlunarflugvelli á Íslandi og því eru haldnar um 3-4 flugslysaæfingar á landinu á ári hverju. Æfingarnar eru almannavarnaræfingar og eru mikilvægar heildarviðbúnaðarkerfi Íslands hvort sem um flugslys eða önnur hópslys er að ræða. Isavia heldur utan um skipulag æfinganna en þær eru samstarfsverkefni fjölda viðbragðsaðila. Að æfingunum koma meðal annars starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar, starfsfólk sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn, prestar, rannsóknaraðilar auk fjölda annarra. Æfingar þessar eru jafnan með stærstu almannavarnaræfingum sem haldnar eru ár hvert og stendur undirbúningur yfir um margra mánaða skeið. Minni æfingar viðbragðsaðila sem færri koma að í einu og æfingar hvers viðbragðsaðila eru mun tíðari, en stóru æfingarnar eru meðal annars til þess að samræma viðbrögð allra aðila.

Æfingin í dag var sviðsett þannig að flugvél með 80 farþega um borð hlekkist á við lendingu á Akureyrarflugvelli og lendir utan brautar, eldar koma upp og margir slasast. Vettvangurinn var gerður mjög raunverulegur en kveikt var í bílflökum til þess að líkja eftir hlutum úr flugvélarbúk, sjúklingar voru farðaðir og allt gert til þess að gera hann sem líkastan raunverulegu slysi. Æfingin gekk vel en að henni lokinni munu allir þættir hennar verða rýndir og farið yfir þau atriði sem mætti bæta.

Isavia vill þakka þeim fjölmörgu aðilum sem komu að æfingunni fyrir gott samstarf.