Hoppa yfir valmynd
31.3.2016
Aðalfundur Isavia 2016

Aðalfundur Isavia 2016

Aðalfundur Isavia var haldinn í dag, fimmtudaginn 31. mars á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Á fundinum var farið yfir rekstur og afkomu félagsins og ársskýrsla fyrir árið 2015 kynnt. Isavia annast rekstur allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu á Íslandi og er eitt af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. 
 

Áframhaldandi góð rekstrarafkoma

Rekstur Isavia gekk vel á árinu 2015 eins og undanfarin ár. Heildartekjur Isavia samstæðunnar á árinu námu 26 milljörðum króna sem er aukning um 4 milljarða eða 18% frá árinu 2014. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði nam um fjórum milljörðum króna og jókst um 671 milljón milli ára. 
 
Heildarafkoma ársins 2015 var jákvæð um 3,1 milljarð króna sem er um 876 milljónum króna betri afkoma en árið 2014. Þennan mun má að hluta rekja til gengisáhrifa af erlendum langtímalánum en stærri hluta má rekja beint til bættrar afkomu af rekstri samstæðunnar. Þessi góða afkoma félagsins skiptir miklu máli til þess að hægt sé að halda áfram þeirri uppbyggingu sem stendur yfir á Keflavíkurflugvelli og notendur flugvallarins kalla eftir.
 
Heildareignir samstæðunnar námu 45,2 milljörðum króna í árslok 2015 og þar af eru 37,2 milljarðar króna tilkomnir vegna fastafjármuna. Alls námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum 7,6 milljörðum króna og þar af eru 6,5 milljarðar króna tilkomnir vegna fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 44,6% í lok árs 2015 samanborið við 41,8% árið á undan og heldur því áfram að hækka. Við stofnun félagsins árið 2010 var eiginfjárhlutfallið 24,6%. Staða handbærs fjár í lok árs 2015 var um 5,0 milljarðar króna. Rekstur samstæðunnar skilaði áfram sterku sjóðstreymi, en handbært fé frá rekstri árið 2015 nam 6,3 milljörðum króna sem er aukning upp á um 1,7 milljarð króna frá sama tímabili í fyrra. Þá jókst meðalfjöldi starfa hjá samstæðunni um 11% og var 1.017 störf árið 2015 samanborið við 914 störf árið 2014. Þar af var meðalfjöldi starfa hjá móðurfélaginu 807 (12,0% aukning), hjá Fríhöfninni 161 (5,6% aukning) og hjá Tern 49 (14,0% aukning).
 
Frá stofnun Isavia hefur afkomu félagsins verið ráðstafað til uppbyggingar sem skilað hefur heilbrigðum rekstri og góðri arðsemi. Félagið mun ekki greiða arð vegna ársins 2015 fremur en undanfarin ár enda mikið uppbyggingarstarf framundan hjá félaginu, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli. Ákvörðun um að endurfjárfesta afkomu ársins í uppbyggingu og verðmætasköpun innan félagsins er einkar vel til þess fallin að styðja enn frekar við vöxt ferðaþjónustunnar. 
 

Hátt í milljarður til ríkisins í formi beinna skatttekna

Árið 2016 greiðir samstæða Isavia um 481 milljón króna í tekjuskatt. Þá skilaði Fríhöfnin um 452 milljónum króna í áfengis- og tóbaksgjald til ríkissjóðs og hefur því skilað alls um 1,8 milljarði króna frá árinu 2011, til ríkissjóðs í formi fyrrnefndra gjalda. Framlag Isavia til ríkisins í formi greiddra og innheimtra skatta nam 5,2 milljörðum króna á síðasta ári, og hækkaði úr 4,4 milljörðum króna frá árinu 2014.
 

Mikið uppbyggingarskeið á Keflavíkurflugvelli

Ljóst er að Isavia gegnir þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Félagið stendur í miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum sem munu halda áfram á komandi árum til þess að mæta auknum fjölda erlendra ferðamanna. Mörg tækifæri eru framundan og þeim fylgja stórar ákvarðanir. Ríkisvaldið, sem fer með eignarhald á Isavia og er stór þjónustukaupandi, stendur því frammi fyrir stórum ákvörðunum, ekki eingöngu hvað varðar framtíðaruppbyggingu Keflavíkurflugvallar heldur einnig hvað varðar þjónustustig í flugsamgöngum innanlands til framtíðar.
 

Framsækin dótturfélög

Dótturfélög Isavia eru Fríhöfnin og hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems. Fríhöfnin hefur hlotið margar viðurkenningar og meðal annars verið valin besta fríhöfn í Evrópu. 161 manns starfa hjá félaginu.
Tern Systems hefur í yfir 25 ár hannað og framleitt hugbúnað til flugumferðarstjórnar og þjálfunar flugumferðarstjóra og er með kerfi uppsett og í notkun hér á landi og víða í Evrópu, Asíu og Afríku. Hjá fyrirtækinu starfa 49 manns auk þess sem mikið af þekkingu og reynslu er sótt til móðurfélagsins eftir þörfum og verkefnum.  
 

Stjórn félagsins

Fjármálaráðherra fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Í stjórn voru kosin Theódóra Þorsteinsdóttir, Ingimundur Sigurpálsson, Matthías Páll Imsland, Sigrún Traustadóttir og Ragnar Óskarsson.
Í varastjórn voru kosin Friðbjörg Matthíasdóttir, Jens Garðar Helgason, Jón Norðfjörð, Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson og Tryggvi Haraldsson.
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:
Þegar Isavia var stofnað árið 2010 var eiginfjárhlutfallið 24,6% og fjárhagslegur styrkleiki hins nýstofnaða félags því ekki sérstaklega mikill. Í lok árs 2015 stóð eiginfjárhlutfallið hins vegar í 44,6% sem er eftirtektarverður árangur í ljósi þess að uppbygging eiginfjárhlutfallsins hefur að öllu leiti átt sér stað úr rekstri. Á sama tímabili hefur félagið fjárfest fyrir tæplega 17 milljarða króna og staða langtímalána er svipuð og hún var í lok stofnársins. 
 
Árið 2015 ber þess vitni að rekstur Isavia er í góðu jafnvægi og það ber fyrst og fremst að þakka öflugu starfsfólki sem hefur tekist að bregðast við fádæma aukningu í farþegafjölda og flugumferð með arðsemi og þjónustulund að leiðarljósi. Það má segja að það séu gríðarmiklar breytingar og áskoranir á öllum sviðum hjá Isavia og þó svo að viðfangsefnin séu ólík þá eiga þau það sameiginlegt að án trausts starfsfólks munum við ekki ná þeim árangri sem stefnt er að. 
 
Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar, sem kynnt var síðastliðið haust, gerði ráð fyrir að farþegafjöldi árið 2019 yrði rúmlega 6,5 milljónir en nýjustu spár benda til þess að þeim farþegafjölda verði náð núna í ár. Ef við tökum árið 2025 sem dæmi þá gerir uppfærð farþegaspá ráð fyrir því að farþegafjöldinn verði sá sami og þróunaráætlunin gerði ráð fyrir að yrði árið 2037.  Þessar miklu forsendubreytingar á skömmum tíma búa til verulegar áskoranir til að leitast við að Keflavíkurflugvöllur verði í stakk búinn til að taka á móti öllum þessum fjölda ferðamanna.  Það er verkefni sem við erum þegar byrjuð að vinna af krafti en það er þó mikilvægt að vinna þá vinnu af yfirvegun og í takt við raunaukningu ferðamanna.