Hoppa yfir valmynd
12.9.2016
Afkoma Isavia á fyrri árshelmingi 2016

Afkoma Isavia á fyrri árshelmingi 2016

 

Rekstrarafkoma Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta á fyrri helmingi ársins 2016 var jákvæð um 1.620 milljónir króna, sem er 30% aukning frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu 14.408 milljónum króna sem er 2.953 milljóna króna aukning samanborið við sama tímabil á síðasta ári eða 26%.  Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 1.667 milljónir króna samanborið við 540 milljónir króna á sama tímabili á síðasta ári og hækkaði því um 1.127 milljónir króna.  Af þeirri hækkun má rekja 670 milljónir króna til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.

Isavia samstæðan samanstendur af rekstri Keflavíkurflugvallar, Fríhafnarinnar, innanlandsflugvallakerfis og flugleiðsöguþjónustu. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir rekstrarafkomu allra þessara þátta vera í takt við áætlanir félagsins.

„Uppfærð farþegaspá Keflavíkurflugvallar sem félagið kynnti í febrúar síðastliðnum gefur þó tilefni til að ætla að afkoma félagsins fyrir árið í heild verði nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Isavia hefur lagt í kostnaðarsamar aðgerðir til að bregðast við fádæma vexti á Keflavíkurflugvelli og það er mjög ánægjulegt að sjá á sama tíma hversu vel hefur tekist til við að standa vörð um arðsemi þess fjármagns sem eigandi félagsins, íslenska ríkið, hefur bundið í rekstrinum.

Isavia kynnti á dögunum vetraráætlun Keflavíkurflugvallar þar sem sætaframboð eykst á milli ára um hátt í 60%. Það er afar ánægjulegt að vetrarferðamennskan skuli aukast þetta mikið og ég er afar stoltur af þætti Isavia í þeim vexti en félagið hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar með öflugri markaðssetningu gagnvart flugfélögum og hvatakerfi sem veitir flugfélögum, sem hefja flug allt árið, afslátt af notendagjöldum.“

Áfram aukning á Keflavíkurflugvelli

Á fyrstu sex mánuðum ársins fóru um 2,7 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll sem er um 34% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta er svipaður fjöldi og fór um flugvöllinn allt árið 2012.  Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að fjöldi farþega árið 2016 verði um 6,7 milljónir talsins sem yrði 37% aukning milli ára.

Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu um 6,2 milljörðum króna og má rekja langstærstan hluta þeirra fjárfestinga til Keflavíkurflugvallar.  Áfram má búast við töluverðum fjárfestingum á Keflavíkurflugvelli, en á sama tíma eykst mikilvægi þess finna leiðir til að ná betri nýtingu á núverandi mannvirkjum með því að stuðla að aukinni flugumferð utan háannatíma innan hvers dags.

Flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið jókst fyrstu sex mánuði ársins um 10% en flugumferð til og frá Íslandi jókst um 24%.

Fjölgun í innanlandsflugi

Á fyrstu sex mánuðum ársins fjölgaði farþegum sem fóru um innanlandsflugvallakerfið um 6,8%, en frá árinu 2011 til 2015 hafði verið viðvarandi fækkun farþega sem nýtti sér flugsamgöngur innanlands.  Afkoma kerfisins hefur því batnað á milli ára.  Þrátt fyrir þennan ánægjulega viðsnúning er ljóst að staða innanlandsflugvallakerfisins er afar erfið og mikil þörf að frekara fjármagni frá ríkinu til reksturs og viðhalds. 

Stærstur hluti rekstrartekna innanlandsflugvallakerfisins er tilkominn vegna þjónustusamnings um rekstur þess á milli Isavia og innanríkisráðuneytisins. Isavia rekur vellina fyrir hönd ríkisins fyrir þá fjármuni sem eru ákvarðaðir í þjónustusamningnum og fjárlögum.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia: „Isavia hefur gengið eins langt og mögulegt er í þeirri viðleitni að mæta sílækkandi fjárframlögum til innanlandsflugs frá ríkinu, með kostnaðaraðhaldi og ráðvendni í rekstri innanlandsflugvallakerfisins.  Það er löngu komið að þolmörkum og ljóst að leita þarf allra leiða til að tryggja að innanlandsflugvallakerfið verði raunhæfur kostur til ferðalaga innanlands. Settur hefur verið á fót vinnuhópur til að skoða hugmyndir um breytt rekstrarform innanlandskerfisins, m.a. til að auka gegnsæi og bæta rekstrarskilyrði innanlandsflugvalla. Isavia mun taka virkan þátt í þeirri vinnu því það er félaginu hjartans mál að innanlandsflugvallakerfið verði rekið að miklum myndarskap.  Það er sárt að upplifa það ár eftir ár að eigandi þess, íslenska ríkið, sjái sér ekki fært að tryggja stoðir kerfisins betur en raun ber vitni.“ 

 

Lykiltölur úr hálfsársuppgjöri 2016

  • Tekjur: 14.408 milljónir króna
  • Rekstrarhagnaður: 1.620 milljónir króna
  • Heildarafkoma eftir skatta: 1.667 milljónir króna
  • Handbært fé: 5.129 milljónir króna
  • Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 6.243 milljónir króna
  • Eigið fé í lok tímabils: 21.801 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall: 41,2%