Hoppa yfir valmynd
26.10.2015
Aukin samkeppni til London

Aukin samkeppni til London

British Airways hóf í gær flug til London á nýjan leik. Flugfélagið flaug á milli London Gatwick og Keflavíkurflugvallar á árunum 2006-2008 en að þessu sinni verður flogið til London Heathrow. Flogið verður þrisvar sinnum í viku, miðvikudaga, föstudaga og sunnudaga, allt árið um kring. Við fyrsta flugið bauð starfsfólk Isavia farþegum upp á veitingar auk þess sem Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Stuart Gill sendiherra Bretlands á Íslandi og Peter Rasmusen, svæðisstjóri British Airways í Norður-Evrópu héldu ræður.
 
Fjögur flugfélög til London árið um kring
 
British Airways er nú í hópi 21 flugfélags sem flýgur til Keflavíkurflugvallar og hið níunda til að sinna heilsársflugi. Fjögur flugfélög fljúga nú til London allt árið um kring og hefur aldrei verið jafnmikil tíðni eða jafnmikil samkeppni á þeirri flugleið.
 
Hin nýja flugleið British Airways opnar mjög góðar tengingar frá London til 500 áfangastaða um allan heim. Flugtíminn fellur til dæmis vel að flugi British Airways frá London til margra áfangastaða í Asíu auk þess sem flestar ferðir British Airways koma og fara frá sömu flugstöð og því þurfa farþegar sem hyggjast millilenda ekki að ferðast langar leiðir innan flugvallarins.
 
British Airways rekur sögu sína allt aftur til ársins 1919 Hjá félaginu starfa í dag rúmlega 40 þúsund starfsmenn. Árlega flýgur félagið um 40 milljónum farþega til 188 áfangastaða með tæplega 300 farþegaþotum. Á undanförnum árum hefur British Airways varið um fimm milljörðum sterlingspunda til endurnýjunar í flugrekstrinum, m.a. á flugflota sínum og er þotan sem nú er að hefja Íslandsflugið hluti þeirrar fjárfestingar. Terminal 5 á Heatrow, þangað sem förinni er heitið frá Keflavík, hefur undanfarin fjögur ár verið kosin besta flugstöð heims að mati Skytrax.