Hoppa yfir valmynd
28.8.2014
Beint flug frá Japan

Beint flug frá Japan

Japan Airlines flýgur sex ferðir frá borgunum Osaka og Tokyo til Keflavíkurflugvallar í ágúst og september. Fyrsta flugið lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 13:30 í dag með 220 farþega. Þetta er þriðja árið í röð sem flugfélagið heldur uppi beinu flugi með ferðamenn til Íslands. Fyrir tveimur árum voru farnar fjórar slíkar ferðir, tvær í fyrra en nú flýgur félagið sex ferðir, eina í ágúst og fimm í september. Af þessum sex ferðum eru fjórar með farþegum og tvær ferðir eru ferjuflug þ.e. þar sem farþegar eru sóttir til Íslands.
 
Félagið notar 300 farþega Boeing 777 þotur í Íslandsfluginu en næstu ferðir verða 4., 11., 13., 18., og 20. september. Flugtíminn er 10 klukkustundir. 
 
Japönskum ferðamönnum hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu voru þeir 12.363 árið 2013 sem er nánast tvöföldun frá árinu 2011, en þá fóru 6.902 Japanir um Keflavíkurflugvöll. Heildaraukning japanskra farþega á Keflavíkurflugvelli fyrstu sjö mánuði þessa árs er 14% miðað við fyrra ár.
 
Flugvél Japan Airlines á Keflavíkurflugvelli í dag. (Emil Georgsson)