Hoppa yfir valmynd
16.11.2017
Borealis samstarfið kemst þremur skrefum nær loftrými með frjálsu flæði flugumferðar

Borealis samstarfið kemst þremur skrefum nær loftrými með frjálsu flæði flugumferðar

Borealis samstarfsbandalag Isavia og átta annarra norður-evrópskra flugleiðsögufyrirtækja hefur komist nær því markmiði að auka frjálsræði flugfélaga varðandi flugleiðir  innan flugstjórnarsvæða sinna. Verkefnið er kallað Free Route Airspace eða loftrými án fastra flugleiða. Þegar verkefninu er lokið mun 12,5 milljóna ferkílómetra flugstjórnarsvæði sem aðilar bandalagsins stýra, vera eins og svæði án landamæra og flugfélög geta flogið þær leiðir sem þau óska í stað þess að fylgja fyrirfram ákveðnum skipulögðum flugleiðum innan hvers svæðis. Með þessu verður flugfélögum unnt að spara tíma og eldsneyti, sem mun hjálpa þeim að minnka kostnað og gera flug yfir Norður-Evrópu umhverfisvænna. 
 
Á þessu ári hafa þrjú mikilvæg skref verið stigin í átt að þeirri sameiginlegu hugsjón að tengja svæðin þannig saman að hægt sé að fljúga frjálsari leiðir innan þeirra. Fyrsta skrefið var á vegum IAA á Írlandi og snerist um að hætta að nota fastar leiðir innan lægra loftrýmis Shannon flugupplýsingasvæðisins. Næstu tvö skref á eftir voru unnin af Isavia. Íslenska flugstjórnarsvæðið hefur í áranna rás ávallt boðið um á mikið frelsi í vali á flugleiðum en nú hefur þeim punktum sem nota má til þess að fljúga inn í svæðið og út úr því verið fjölgað mikið. Þannig eykst sveigjanleiki og notendur geta valið beinni flugleiðir úr nærliggjandi flugstjórnarsvæðum inn í það íslenska og út úr því.  
 
Branka Subotić framkvæmdastjóri Borealis: „Afrakstur þeirrar miklu vinnu sem Isavia og IAA hafa staðið í undanfarið færir okkur nær því lokamarkmiði okkar að öll níu flugstjórnarsvæðin vinni saman sem eitt og hægt verði að bjóða upp á frjálst flæði flugumferðar innan alls loftrýmisins. Þannig bjóðum við flugfélögum og öðrum notendum flugstjórnarsvæðanna möguleika á að spara bæði mikinn tíma og eldsneyti. Hið farsæla samstarf á milli Borealis aðilanna um að þróa og bæta þjónustuna til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína og flugfarþega sýnir í verki vilja okkar til þess að gera framtíðarsýnina um sameiginlegt evrópskt loftrými að raunveruleika.“
 
Samstarf Borealis um aukið frelsi í flæði flugumferðar mun gera flugfélögum og öðrum sem um loftrýmið fara kleyft að velja hagkvæmustu og stystu flugleiðirnar hverju sinni um allt svæðið sem flugleiðsöguaðilarnir níu stýra og spara þannig tíma, peninga og eldsneyti. Þegar lokamarkmiðinu hefur verið náð, mun minnkuð eldsneytisbrennsla geta numið allt að 46.000 tonnum á ári, sem minnkar útblástur koltvísýrings um 146.000 tonn og fækkar flognum kílómetrum um allt að 13 milljónir.