Hoppa yfir valmynd
12.12.2014
EFTA-dómstóllinn úrskurðar að EES-reglur gildi um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla

EFTA-dómstóllinn úrskurðar að EES-reglur gildi um úthlutun afgreiðslutíma flugvalla

Samkeppnisyfirvöld geta ekki beint fyrirmælum til Isavia eða samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar vegna úthlutunar á afgreiðslutíma á flugvellinum. Þetta er niðurstaða EFTA dómstólsins í ráðgefandi áliti sem héraðsdómur Reykjavíkur beindi til dómstólsins að kröfu Isavia.
 
Niðurstaðan er í samræmi við þau sjónarmið sem Isavia hefur haldið fram og koma ekki á óvart. Í henni er lögð áhersla á samræmdar EES reglur og að yfirvöld aðildarríkjanna geti ekki gripið inn í þær og úthlutað afgreiðslutímum eftir eigin höfði. Fyrirmælum verður ekki beint til samræmingarstjóra eða rekstraraðila flugvallar en mætti beina til flugfélags, t.d.í tengslum við brot á samkeppnisreglum, þ.e. misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ólöglegt samráð svo dæmi séu tekin.
 
Upphaf málsins er að flugfélagið WOW Air höfðaði mál gegn Isavia, Samkeppniseftirlitinu og Icelandair vegna úthlutunar afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumarið 2014 og vildi þar með snúa við niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hafði fellt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi. Úthlutun afgreiðslutíma er í höndum sjálfstæðs aðila og fer fram í samræmi við alþjóðareglur sem Ísland er aðili að. Úthlutunarreglurnar miðast við hámarkshagræði í flugvallarrekstri sem fjármagnaður er með notendagjöldum. Flugrekendur eiga rétt til endurúthlutunar ef afgreiðslutímar hafa verið nýttir 80% eða meira á fyrra tímabili. 
 
Samkeppniseftirlitið hafði áður úrskurðað að úthlutunarreglurnar væru skaðlegar samkeppni og mælti svo fyrir að Isavia skyldi úthluta WOW Air afgreiðslutímum óháð EES reglum. Við rekstur málsins fyrir dómi krafðist Isavia þess að leitað yrði álits hjá EFTA-dómstólnum um túlkun á reglum EES um úthlutun afgreiðslutíma. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þessari beiðni en  Hæstiréttur sneri við þeirri ákvörðun og ákvað að leita álits EFTA dómstólsins sem skilaði niðurstöðu sinni miðvikudaginn 10. desember. Þar kemur fram að opinber yfirvöld mega ekki beina fyrirmælum um úthlutun afgreiðslutíma til Isavia eða sjálfstæðs samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar. Aftur á móti sé samkeppnisyfirvöldum heimilt að beina fyrirmælum til  flugrekenda í samræmi við reglur samkeppnisréttar þ.e. ef sýnt er framá að um sé að ræða brot á samkeppnisreglum, þ.e.  misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða ólöglegt samráð.
 
Aðalmeðferð í máli WOW Air fer fram hjá héraðsdómi Reykjavíkur 19. desember nk. sem tekur afstöðu til ráðgefandi álits EFTA dómstólsins.