Hoppa yfir valmynd
23.5.2017
Ferðasumarið framundan - Opinn fundur Isavia um ferðasumarið 2017

Ferðasumarið framundan - Opinn fundur Isavia um ferðasumarið 2017

Isavia hélt í dag opinn morgunfund um ferðasumarið fram undan á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum var meðal annars farið yfir farþegaspá Isavia og hvernig hún hefur staðist það sem af er ári, áætlaðan fjölda ferðamanna sem sækir landið heim í sumar, þær aðgerðir sem Isavia hefur farið í til þess að taka vel á móti þeim mikla fjölda sem fer nú um flugvöllinn og þann árangur sem náðst hefur í þjónustukönnun á flugvellinum þrátt fyrir gríðarlega fjölgun farþega. Þá fór Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri yfir þau verkefni sem Ferðamálastofa hefur ráðist í til að taka betur á móti ferðamönnum og hvernig fé úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða hefur verið ráðstafað. 

Sjá upptöku af fundinum í morgun:

Elín Árnadóttir aðstoðarforstjóri Isavia: Mikilvægi ferðaþjónustunnar sem atvinnugrein hefur vaxið í takt við þennan mikla vöxt og nú er ferðaþjónustan ótvírætt ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og sannarlega mikilvæg viðbót við þær atvinnustoðir sem hafa haldið  landinu okkar uppi. Þessu ber að fagna, og við eigum að ræða jákvætt um þessa atvinnugrein sem og aðrar því þær vega hvor aðra upp og styrkja okkur sem þjóð.   

?

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia

 

Spár hafa gengið eftir

Grétar Már Garðarsson verkefnastjóri á viðskiptasviði Keflavíkurflugvallar fór yfir farþegaþróun á Keflavíkurflugvelli síðastliðin ár og spá Isavia fyrir árið 2017. Spáin hefur ræst að mestu leyti það sem af er ári og útlit er fyrir að sumarmánuðirnir verði einnig í takt við spána. Samkvæmt spánni mun fjölgun ferðamanna yfir árið í heild nema um 25% en hlutfallsleg fjölgun yfir hásumarið verður minni, eða 12%. Hann sýndi einnig fram á mikinn árangur í að minnka árstíðarsveifluna, en nú kemur þriðjungur ferðamanna yfir hásumarið miðað við 50% árið 2010. Grétar útskýrði einnig hvernig þjóðernistalning fer fram og þær breytingar sem gerðar verða á næstunni til þess að gera upplýsingarnar nákvæmari. Samkvæmt talningunni voru Bandaríkin stærsti markaðurinn og jókst fjöldi farþega um 71% milli ára. Bretar koma þar næst og jukust ferðir þeirra til landsins um 31% frá fyrra ári. Þá fór Grétar yfir áhrif af hvatakerfi sem býður afslátt af notendagjöldum fyrir flugfélög sem nota flugvöllinn utan mestu álagstímanna. 

Grétar Már Garðarsson, verkefnastjóri á Viðskiptasviði Isavia

 

Aukin ánægja farþega þrátt fyrir mikinn vöxt

Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar fór yfir þær aðgerðir sem Isavia hefur staðið í til þess að taka við auknum fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll í sumar. Meðal annars verður 7.000 fermetra stækkun tekin í notkun í ár með tvöfalt stærri landamærasal og stórbættu biðsvæði með verslunar- og veitingaþjónustu í suðurbyggingu. Hann sýndi einnig niðurstöðu samræmdra þjónustukannana sem framkvæmdar eru af Alþjóðasamtökum flugvalla (ACI) og eru framkvæmdar á fjölda flugvalla um allan heim. ACI könnunin sýnir að þrátt fyrir 40% fjölgun farþega árið 2016 tókst starfsfólki á Keflavíkurflugvelli að bæta þjónustuna sem er eftirtektarverður árangur. Að lokum kynnti Hlynur þá nýjung að opnað verður fyrir innritun á miðnætti fyrir morgunflug. Með þessu móti er talið að hægt sé að minnka álagið í innritun að morgni. Næturopnunartíminn verður til reynslu í júní. 

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptasviðs

 

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur úthlutað 3,4 milljörðum frá upphafi

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri fór yfir starf Ferðamálastofu og úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Alls hefur 3,4 milljörðum króna verið úthlutað úr sjóðnum frá stofnun hans árið 2012 og sýndi Ólöf einnig hvernig úthlutanir hafa dreifst yfir allt landið. Einnig kynnti Ólöf þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamanna og fór yfir gæða- og umhverfiskerfið Vakann sem hefur það að markmiði að efla fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar á Íslandi. Eitt stærsta og viðamesta verkefni Ferðamálastofu eru talningar og rannsóknir innan ferðaþjónustunnar og er gott samstarf við Isavia þar afar mikilvægt. Ólöf lagði ríka áherslu á mikilvægi samvinnu og að samræma aðgerðir aðila innan ferðaþjónustunnar. Þannig vinnur Ferðamálastofa nú t.d. í samvinnu við Stjórnstöð ferðamála að gerð svonefndra  stefnumarkandi stjórnunaráætlana  áfangastaða eða  Destination Management Plans - DMP. Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Að lokum beindi Ólöf sjónum að endurskoðun á upplýsingaveitu til ferðamanna og hvernig hægt væri að bæta upplýsingaþjónustuna til þess að auka öryggi og stuðla að umhverfisvernd. 

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri