Hoppa yfir valmynd
27.2.2017
Flug hafið milli Keflavíkur og Akureyrar

Flug hafið milli Keflavíkur og Akureyrar

Flugfélag Íslands hefur hafið beint innanlandsflug milli Keflavíkur og Akureyrar en flogið verður allan ársins hring milli þessara áfangastaða. Tengingin mun auðvelda íbúum á Norðurlandi að nýta sér enn frekar millilandaflug til og frá Íslandi og auðveldi að sama skapi erlendum ferðamönnum að komast beint til Norðurlands. 
 
Flogið verður allt að sex sinnum í viku yfir vetrartímann og að lágmarki tvisvar í viku yfir sumartímann og fyrst um sinn verður þessi þjónusta í boði fyrir þá sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta því ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku og heim aftur. 
 
Farþegar sem fljúga frá Akureyri verða bókaðir í áframhaldandi flug með Icelandair en þeir sem fljúga með öðrum flugfélögum nálgast brottfararspjald sitt á þjónustuborði viðkomandi flugfélags í Keflavík eða með netinnritun, farsímainnritun eða sjálfsafgreiðslu. Farangur farþega er innritaður á Akureyri í áframhaldandi flug frá Keflavík.