Hoppa yfir valmynd
28.6.2016
Framkvæmdir í komusal Keflavíkurflugvallar

Framkvæmdir í komusal Keflavíkurflugvallar

Nú standa yfir framkvæmdir í komusal Keflavíkurflugvallar þar sem verið er að tengja töskufæriböndin við nýtt farangurskerfi. Kerfið er sett upp til þess að geta afgreitt stærri gerðir flugvéla sem notast við svokallaða farangursgáma. Af þessum sökum eru einungis tvö færibönd af þremur í notkun þessa dagana sem getur valdið töfum á afhendingu taska, sérstaklega þegar um háannatíma innan dagsins er að ræða, um kvöld, eftirmiðdag og um miðnætti. 
 
Búist er við því að öll farangursböndin verði komin í notkun þann 7. júlí en fram að því má búast við einhverjum töfum við afhendingu á töskum til komufarþega. Helst má búast við töfum á fimmtudögum og sunnudögum og þá helst í kringum miðnættið, en þá er hvað mest af farþegum að koma til landsins.
 
Isavia hefur unnið með rekstraraðilum í flugstöðinni að því að lágmarka tafir á meðan á framkvæmdum stendur. Ákveðið hefur verið að auka fjölda starfsmanna í farþegaþjónustu og öryggisvörslu í komusalnum á álagstímum, en þeir munu aðstoða við að taka töskur af færiböndunum og veita almennar upplýsingar.  Einnig verður farið í aðgerðir til að bæta hraða við að afhenda töskur á þau farangursbönd sem eru í notkun í samráði við rekstraraðila. 
 
Við biðjumst velvirðingar á þeim töfum sem þessar framkvæmdir hafa haft í för með sér.