Hoppa yfir valmynd
28.10.2014
Fyrstu vélar easyJet frá London Gatwick og Genf lentu í Keflavík

Fyrstu vélar easyJet frá London Gatwick og Genf lentu í Keflavík

 
easyJet starfrækir í dag sjö heilsársflugleiðir frá Íslandi og mun sú áttunda til Belfast bætast við í desember
 
easyJet, stærsta flugfélag Bretlands og það umsvifamesta á London Gatwick flugvelli, hóf í gær beint áætlunarflug frá Íslandi til Gatwick-flugvallar í Englandi og til Genfar í Sviss. Flogið verður þrisvar í viku til Gatwick og tvisvar í viku til Genfar – allt árið um kring.
 
Flug EZS 1521 og EZY 8507 lentu seinnipartinn annars vegar með 154 farþega innanborðs frá Genf og 178 farþega frá Gatwick. Flugstjóri í síðarnefnda jómfrúarfluginu var Íslendingurinn Davíð Ásgeirsson og var hann viðstaddur stutta móttökuathöfn ásamt m.a. breska sendiherranum hér á landi, Stuart Gill, Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra ferðamála og Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, en þau klipptu á borða við brottfararhliðið áður en fyrstu farþegarnir stigu um borð.
 
Með þessum nýju leiðum er fjöldi heilsársflugleiða sem easyJet starfrækir frá Íslandi orðinn sjö og mun áttunda leiðin bætast við í desember þegar easyJet hefur flug á milli Íslands og Belfast í N-Írlandi. Þá mun flugfélagið bjóða upp á alls 26 flug til og frá Íslandi í viku hverri. Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um rúm 40% undanfarin tvö ár og aukið framboð á hagstæðu flugi til landsins hefur átt mikinn þátt í þeirri fjölgun.
 
easyJet hyggst flytja um 75 þúsund farþega á nýju flugleiðunum tveimur til Gatwick og Genf á næstu 12 mánuðum, sem þýðir umtalsverðar viðbótar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
 
Ali Gayward, hjá easyJet: „Við erum afar spennt að hefja flug frá Íslandi til London Gatwick og Genfar í dag. Sú aukning sem er að verða á flugi okkar á milli höfuðborga Íslands, Bretlands og Sviss er í samræmi við þá stefnu okkar að gera ferðalög auðveldari og ódýrari fyrir þá sem þurfa að ferðast vegna viðskipta jafnt sem þá sem eru á leið í frí. Það er vaxandi eftirspurn í þessum borgum eftir stuttum og lengri ferðalögum um Ísland en jafnframt eykst þörfin á því að tengja viðskiptalíf þessara borga fyrir þá sem ferðast vegna vinnu. Hagstæð flugfargjöld og vel tengdir flugvellir á báðum endum þessara flugleiða munu hafa mikið gildi fyrir bæði íslenska og breska neytendur.“
 
Davíð Ásgeirsson, flugstjóri: „Með þessum heilsársflugleiðum hefur easyJet gert það auðveldara fyrir þá sem stunda viðskipti að ferðast til London og Genfar. Aukin tíðni og hagræði í flugsamgöngum er mikilvæg fyrir þá sem ferðast mikið.  Þá heldur stórbrotin náttúra Íslands, norðurljósin, eldfjöllin og víðfrægt næturlífið í Reykjavík áfram að draga að sér farþega frá öðrum áfangastöðum easyJet.“