Hoppa yfir valmynd
23.7.2015

Í ljósi umfjöllunar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis deildi á Facebook síðu sinni grein af bloggsíðunni Fararheill.is og dró af henni ýmsar ályktanir um Isavia. Margar rangfærslur eru í grein Fararheilla sem virðist byggja á annað hvort röngum upplýsingum eða getgátum. Álagið hefur verið mikið undanfarið og að sjálfsögðu getur það bitnað á þjónustu. Starfsfólk Isavia fagnar uppbyggilegri gagnrýni og ábendingum en órökstuddum greinum byggðum á röngum forsendum eða getgátum er rétt að svara. Hér að neðan er farið yfir helstu staðreyndir málsins.

Tekjur af verslun nauðsynlegar til sjálfbærrar uppbyggingar

Breytingarnar sem gerðar voru á verslunar- og veitingasvæðinu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru hluti af stærri framkvæmd. Hún fólst í því að stækka öryggisleitarsvæðið umtalsvert, bæta flæði um verslunar- og veitingasvæðið og endurskipuleggja það. Þá voru samningar við rekstraraðila útrunnir og ákveðið að ráðast í valferli um rekstur verslana og veitingastaða. Í valferlinu var meðal annars lagt upp úr því að Isavia fengi sem mestar tekjur af verslunar- og veitingasvæðinu, enda eru þær tekjur nýttar til sjálfbærrar uppbyggingar flugvallarins. Þessar tekur eru því forsenda þess að hægt sé að byggja upp flugvöllinn í takt við farþegafjölgun.

Álagstímar á öllum flugvöllum

Allir flugvellir hafa sína álagstíma og iðulega eru lengri raðir á álagstímum og fáar flugstöðvar, ef nokkrar, eru byggðar miðað við mestu álagsklukkutíma sólarhringsins og mestu álagsdaga ársins. Bið í öryggisleit og innritun er því ekki eitthvað sem er óeðlilegt á þessum mestu álagstímum. Isavia fylgist með biðröðum og leitast á öllum tímum við að minnka biðtíma farþega þar sem því verður við komið. Samtals tveggja klukkustunda biðraðir, eins og hermt er í greininni, er hins vegar eitthvað sem við höfum aldrei mælt hjá okkur. Þegar ástandið var sem verst í byrjun júlí á þessu ári taldist okkur til að samtals biðraðir í innritun og öryggisleit hafi mest verið um það bil 90 mínútur. Þetta var þegar verið var að klára uppsetningu á öryggisleitarlínum sem hafði tafist vegna vandamála hjá framleiðanda. Eftir þessa tvo-þrjá daga í júlí þar sem biðraðir voru lengstar hefur heildarbiðtími langflestra farþega verið undir 60 mínútum og raunar yfirleitt undir 30 mínútum samtals í innritun og öryggisleit. Til samanburðar má nefna að biðtími í röð á Kaupmannahafnarflugvelli er oft á annan klukkutíma á mestu álagstímum nú í sumar.

Úttekt á flugverndarþjónustu – fréttir stórlega ýktar

Flugvernd er öryggisstarf og reglulega eru gerðar úttektir innlendra og erlendra eftirlitsstofnana auk þess sem ástundað er öflugt innra eftirlit. Það er ekki óalgengt að upp komi ábendingar um úrbætur í þessum úttektum og í kjölfar þeirra gerum við oft breytingar á verklagi og/eða þjálfun. Isavia má lögum samkvæmt ekki tjá sig um niðurstöður þessara úttekta, þar sem hryðjuverkamenn gætu nýtt sér þær upplýsingar. Hins vegar getum við sagt að fréttir sem sagðar voru nýlega af úttekt hafi verið stórlega ýktar.

Ótrúleg farþegafjölgun

Á örstuttum tíma hefur farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgað gríðarlega mikið. Fyrstu sex mánuði þessa árs fóru álíka margir farþegar um flugvöllinn og allt árið 2010 og inni í þessum fyrri helmingi ársins eru ekki tveir stærstu mánuðirnir, júlí og ágúst. Þá er farþegaaukningin í júlí, sem er alltaf mikill álagsmánuður, um 20% en spár Isavia, sem byggja á spám flugfélaganna, gerðu ráð fyrir 10-11% aukningu þennan mánuð. Þetta ár er gert ráð fyrir að 4,7 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll. Þegar mest lét árið 2007 var slegið met í farþegafjölda um Keflavíkurflugvöll og 2,4 milljónir fóru um völlinn – næstum helmingi færri farþegar en munu fara um flugvöllinn þetta árið. Farþegaaukningin hefur verið í kringum 20% á ári ár eftir ár að undanförnu. Þetta er í raun einsdæmi í Evrópu en á flugvöllunum í kringum okkur er farþegaaukningin um það bil 5-7% á ári.

Landslagið hefur því breyst mjög mikið á örstuttum tíma. Isavia hefur brugðist hratt við breytingunum og staðið í mikilli uppbyggingu síðustu árin. Hins vegar hefur Keflavíkurflugvöllur eðlilega fundið fyrir vaxtarverkjum, eins og aðrir innviðir ferðaþjónustunnar, sérstaklega nú þegar farþegafjöldinn er kominn vel fram úr spám. Starfsfólk á Keflavíkurflugvelli, bæði starfsfólk Isavia og annarra rekstraraðila á vellinum hefur staðið sig gríðarlega vel að takast á við þessa aukningu og vegna þess að allir lögðust á eitt tók það mjög stuttan tíma að ná jafnvægi á flæðið og stytta biðtíma mjög mikið frá því sem hann var fyrst í júlí. Við eigum hins vegar ennþá stærstu dagana eftir fyrstu tvær helgarnar í ágúst svo farþegar eru enn hvattir til að mæta tímanlega á álagstímum.

Mikil uppbygging stendur yfir – enn meiri uppbygging áformuð

Eftir efnahagshrun hækkuðu skuldir Isavia mikið, enda aðallega í erlendri mynt. Fyrstu árin eftir hrunið fóru því í aðhald og að greiða niður skuldir. Í kringum árið 2012 var búið að ná jafnvægi í rekstrinum og hægt að fara í fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli. Síðan þá hefur Isavia meðal annars tvöfaldað afkastagetu farangursflokkunarkerfisins, hafið 5.000 fermetra stækkun suðurhluta flugstöðvarinnar, stækkað öryggisleitarsvæðið, fjölgað öryggisleitarvélum, breytt verslunar- og veitingasvæðinu, hafið mikla stækkun komusalarins og margt fleira. Það er því alrangt að Isavia hafi ekki unnið að úrbótum eins og fullyrt er í greininni. Það er takmarkað hversu marga starfsmenn er hægt að hafa í einu í vinnu við framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og á hversu mörgum stöðum hægt er að framkvæma í einu á sama tíma og starfsemi flugstöðvarinnar og flugvallarins þarf að ganga óskert. Unnin hefur verið ítarleg áætlun um framtíðaruppbyggingu flugvallarins, í takt við farþegaaukningu sem spáð er næstu árin.

Upplýsingar

Isavia er boðið og búið að veita upplýsingar um starfsemina og vill hvetja þá sem hyggjast skrifa um fyrirtækið á vefi og miðla til þess að setja sig í samband ef þá vantar upplýsingar. Til dæmis er hægt að senda póst á netföngin [email protected] eða [email protected].