Hoppa yfir valmynd
11.5.2016
Isavia hefur aðgerðir til minnkunar umhverfisáhrifa Keflavíkurflugvallar

Isavia hefur aðgerðir til minnkunar umhverfisáhrifa Keflavíkurflugvallar

Keflavíkurflugvöllur hefur lokið fyrsta skrefi í kolefnisvottun Alþjóðasamtaka flugvalla (Airports Council International). Kolefnisvottunarverkefni samtakanna gengur út á að minnka umhverfisáhrif flugvalla. Verkefnið skiptist í fjögur stig; kortlagningu kolefnisspors, markmiðasetningu og minnkun kolefnislosunar, minnkun kolefnislosunar í samstarfi við aðra rekstraraðila á flugvellinum og lokastigið er kolefnisjöfnun flugvallarins.

Fyrsta stigið felst í greiningu á umhverfisáhrifum reksturs flugvallarins á nærumhverfið og kortlagningu á kolefnisspori starfseminnar. Þessi vinna hefur tekið um fimm mánuði en hún er grundvöllur að því að sýna fram á árangur í minnkun kolefnislosunar á hvern farþega í vottunarferlinu.

Kolefnisvottun Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI Airport Carbon Accredidation) hefur fengið viðurkenningu fjölda stofnana, m.a. frá Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP), Alþjóðaflugmálastofnun (ICAO) og Evrópusambandinu. Alls hafa 156 flugvellir um allan heim fengið vottun ACA, en um þá fara 32,6% flugumferðar í heiminum. Keflavíkurflugvöllur er á meðal 106 vottaðra flugvalla í Evrópu.

Samhliða þessari vinnu hefur farið fram vinna við ISO14001 vottun valinna flugvalla innan vébanda Isavia. ISO14001 er alþjóðlegur staðall og það umhverfisstjórnunarkerfi sem er mest notað í heiminum í dag. Framkvæmdar hafa verið umhverfisúttektir á flugvöllum fyrirtækisins í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum þar sem mikilvægir umhverfisþættir í starfsemi Isavia hafa verið skilgreindir, áhrif þeirra á umhverfið metin og sett fram aðgerðaáætlun sem tryggir stöðuga vöktun og stýringu þeirra umhverfisþátta.

Nánari upplýsingar um kolefnisvottun Alþjóðasamtaka flugvalla er að finna hér: http://www.airportcarbonaccreditation.org/