Hoppa yfir valmynd
15.7.2016
Isavia hefur afhent Kaffitári gögn

Isavia hefur afhent Kaffitári gögn

Isavia hefur afhent Kaffitári gögn er tengjast forvali um samkeppni til reksturs verslana og veitingastaða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gögnin voru boðsend í morgun á skrifstofu Kaffitárs þar sem tekið var við þeim. Samkeppniseftirlitið var búið að vara við því að afhending gagnanna, sem og viðtaka, gæti verið brot á samkeppnislögum, en hendur Isavia eru bundnar í þessu máli þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafði úrskurðað að afhenda bæri gögnin.

Samkeppniseftirlitið beindi, í bréfi sínu, þeim tilmælum til Isavia og Kaffitárs að „leita allra mögulegra leiða til að veita Kaffitári aðgang að þeim upplýsingum sem gerir félaginu kleift að gæta að réttarstöðu sinni án þess að sú upplýsingamiðlun gangi svo langt að samkeppni sé raskað.“ Í því skyni bauð Isavia Kaffitári að lögmenn félaganna settust yfir gögnin og fyndu leið til að verða við tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Því hafnaði Kaffitár.

Isavia boðaði lögmann Kaffitárs á fund í gær, fimmtudaginn 14. júlí. Þar reyndi lögmaður Isavia að afhenda gögnin, en lögmaður Kaffitárs neitaði að taka við þeim. Isavia ítrekaði þá boð sitt um að setjast yfir gögnin til að fara eftir tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Kaffitár vildi hins vegar halda máli sínu fyrir Sýslumanni til streitu, þar sem afhendingar gagnanna yrði krafist, þrátt fyrir að fulltrúi Kaffitárs hafi neitað að taka við þeim.

Isavia boðsendi því gögnin á skrifstofu Kaffitárs í morgun og var þeim veitt viðtaka þar, áður en boðaður fundur hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu fór fram.

Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi varað við því að Isavia gæti gerst brotlegt við samkeppnislög með afhendingu gagnanna, taldi fyrirtækið sér ekki annað stætt en að verða við úrskurði héraðsdóms þar um. Það er þá á ábyrgð Kaffitárs að hafa tekið við gögnunum, en Samkeppniseftirlitið telur að viðtakan geti falið í sér brot á samkeppnislögum.

Isavia reyndi fram á síðustu stundu að ná samkomulagi við Kaffitár um að fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins. Kaffitár hefur hins vegar ekki sýnt vilja til þess og því hefur Isavia nú afhent gögnin, eins og fyrr segir.

Isavia hefur alla tíð haldið því fram að óeðlilegt væri að afhenda þriðja aðila viðkvæm gögn um rekstur og áætlanir samkeppnisaðila og Samkeppniseftirlitið tekur undir það í bréfi sínu. Það er Kaffitárs að svara fyrir viðtöku gagnanna.

Gögnin sem um ræðir snúast ekki um Isavia heldur um fyrirtæki sem tóku þátt í samkeppni um veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Isavia hefur ekki haft neinna hagsmuna að gæta í málinu, annarra en þeirra að fara eftir lögum og eðlilegum viðskiptaháttum. Niðurstaða forvalsins var eingöngu byggð á viðskiptalegum forsendum.