Hoppa yfir valmynd
8.3.2016
Isavia hlaut alþjóðleg verðlaun á sviði flugleiðsögu

Isavia hlaut alþjóðleg verðlaun á sviði flugleiðsögu

Fyrsti flugleiðsöguaðilinn í Evrópu til þess að nota nýja tækni sem minnkar útblástur

Jón Gunnlaugsson flugumferðarstjóri, Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, Þórdís Sigurðardóttir deildarstjóri flugstjórnarmiðstöðvar og Karl Pálsson verkefnastjóri í þróunardeild flugleiðsögu tóku á móti verðlaununum í gær. 

Í gærkvöld tók Isavia við IHS Jane‘s verðlaununum í flokki þjónustu. Isavia var tilnefnt til verðlaunanna fyrir tvö verkefni en hlaut þau fyrir innleiðingu á ADS-B tækni við flugleiðsöguþjónustu. Verðlaunin voru veitt á World ATM flugleiðsöguráðstefnunni sem nú stendur yfir í Madríd.

Isavia er fyrsti flugleiðsöguaðilinn í Evrópu til að taka upp ADS-B aðskilnað í alþjóðlegu loftrými. Með betri tækni og minni aðskilnaði er hægt að bæta mjög sveigjanleika við val á flugleiðum á milli Evrópu og Norður-Ameríku. ADS-B tæknin byggir á GPS gögnum og gefur nákvæmari og örari upplýsingar um staðsetningu flugvéla heldur en ratsjá og nú er því hægt að minnka aðskilnað á umferðarmesta hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins úr 50-120 sjómílum niður í 10 sjómílur. Breytingin minnkar eldsneytisnotkun verulega í flugstjórnarsvæðinu með tilheyrandi minni útblæstri og sparnaði fyrir flugfélög.

30 milljón ferðalög á ári

Frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík stýrir Isavia flugumferð í einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og kemur þannig að ferðalagi yfir 30 milljóna manna ár hvert. Svæðið er 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og nær yfir Ísland og meiri hluta Grænlands. Íslenska flugstjórnarsvæðið tengir þrjár heimsálfur, Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en um það fer um 30% flugumferðar á milli Evrópu og Norður-Ameríku auk þess sem flug á milli Asíu og Norður-Ameríku yfir Norðurpólinn hefur aukist mikið undanfarin ár. Starfsemin er rekin á notendagjöldum og skilar á sjötta milljarð króna á ári í gjaldeyristekjur til þjóðarinnar.

Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia: „Við höfum lagt mikla áherslu á að vera í fremstu röð hvað varðar þjónustu og tækninýjungar. Innleiðing þessa nýja búnaðar er bylting fyrir flugfélög sem fljúga á milli Evrópu og Norður-Ameríku en nú geta mun fleiri flugvélar í einu flogið hagkvæmustu flugleiðirnar og því höfum við oft talað um að nú sé komin hraðbraut yfir Norður-Atlantshafið. Um 30 prósent allrar umferðar á milli heimsálfanna tveggja fara um íslenska flugstjórnarsvæðið og yfir 200 milljón kílómetrar eru flognir innan svæðisins ár hvert. Það er því mikið hagsmunamál, bæði fyrir flugfélögin og umhverfið að sem flestir geti flogið hagkvæmustu leiðirnar.“

Nánari upplýsingar um verðlaunin og aðra verðlaunahafa er að finna á vef IHS Jane‘s: http://www.ihsairport360.com/article/7526/stars-of-atm-shine-in-madrid