Hoppa yfir valmynd
22.5.2015
Isavia tekur við umsóknum í grunnnám í flugumferðarstjórn í ágúst

Isavia tekur við umsóknum í grunnnám í flugumferðarstjórn í ágúst

Isavia, Flugskóli Íslands og Flugskóli Keilis hafa gert samkomulag um að grunnámskeið fyrir nám í flugumferðarstjórn verði framvegis haldin á vegum Isavia en flugskólarnir hafa haldið slík námskeið undanfarin sex ár. Tekið verður við umsóknum í grunnnámið í ágúst 2015 og námið hefst í janúar 2016.

Isavia annast rekstur íslensku flugleiðsöguþjónustunnar og er eini starfsvettvangur flugumferðastjóra á Íslandi. Félagið og forverar þess hafa jafnan annast alla þjálfun flugumferðarstjóra en áætlað er að þjálfa þurfi að meðaltali sex nýja flugumferðarstjóra árlega næstu árin.

Áformað er að halda grunnnámskeið í flugumferðarstjórn á vegum Isavia 2016 og eiga samstarf við flugskólana um kennslu í flugtengdum greinum. 

Nemar sem teknir verða inn í grunnnám í flugumferðarstjórn hjá Isavia munu ekki greiða skólagjöld.

Hæfniskröfur inn í grunnnám í flugumferðarstjórn eru meðal annars þessar:

  • Viðkomandi þarf að vera a.m.k. 18 ára og hafa lokið stúdentsprófi (eða sambærilegu).
  • Umsækjendur tali og riti góða íslensku og ensku.
  • Umsækjendur skulu geta staðist læknisskoðun skv. reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra.
  • Umsækjendur þurfa að hafa hreint sakavottorð.