Hoppa yfir valmynd
18.1.2017
Isavia undirritar samning um geimkögun

Isavia undirritar samning um geimkögun

- Búnaðinum var skotið upp með SpaceX eldflauginni um liðna helgi
 
Isavia hefur undirritað samning við fyrirtækið Aireon um notkun á geimlægum kögunarbúnaði við stýringu flugumferðar í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Tæknin nefnist á ensku Space Based ADS-B og verður með henni hægt að fá nákvæmari upplýsingar um staðsetningu flugvéla í nyrðri hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins. Nú þegar er Isavia með ADS-B búnað á umferðarmesta hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins en sá búnaður byggir á jarðstöðvum sem staðsettar eru á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Með geimkögunarbúnaðinum sem staðsettur verður í 75 gervihnöttum mun nást sama nákvæmni í staðsetningu flugvéla um allt íslenska flugstjórnarsvæðið, allt upp að norðurpólnum. Þegar búnaðurinn verður kominn upp mun Isavia framkvæma prófanir fyrir norðan 70. breiddargráðu til þess að meta til fullnustu hagræðið sem verður af breytingunni, en aldrei áður hefur verið hægt að fá svo nákvæmar upplýsingar um flugumferð við pólsvæðið. 
 
Öryggi, hagkvæmni og minni útblástur
Íslenska flugstjórnarsvæðið er 5,4 milljón ferkílómetrar að stærð og eitt hið stærsta í heiminum og fóru 165.000 flugvélar um svæðið á árinu 2016. Með aukinni staðsetningarnákvæmni innan svæðisins verður hægt að minnka aðskilnað milli flugvéla þannig að fleiri vélar geta í senn flogið við hagkvæmustu flugskilyrðin. Með þessu geta flugfélögin minnkað eldsneytiseyðslu og útblástur gróðurhúsaloftegunda. Hinn nýi búnaður stuðlar því að auknu öryggi, minnkuðum umhverfisáhrifum og sparnaði hjá flugfélögum. 
 
Mikilvægt svæði
Íslenska flugstjórnarsvæðið tengir saman mörg flugstjórnarsvæði á Norður-Atlantshafi, hið kanadíska, írska, norska og rússneska. Þannig er Isavia lykilaðili í öruggum og hagkvæmum flugsamgöngum yfir Norður-Atlantshafið. Með innleiðingu á þessari nýju tækni mun Isavia geta boðið bestu þjónustu sem völ er á í dag á þessu stóra og mikilvæga flugstjórnarsvæði. 
 
Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia: „Aireon vinnur nú þegar með kollegum okkar hjá NAV Canada og NATS í Bretlandi við uppsetningu á geimkögunarbúnaði við úthafsflugumferðarstjórn á Norður-Atlantshafi. Við hjá Isavia viljum vera í fremstu röð hvað varðar öryggi og ekki síður hagkvæmni í flugstjórnarsvæðinu okkar. Kostirnir við að innleiða ADS-B á svæðinu okkar eru augljósir. Við vinnum í nánu samstarfi við flugleiðsöguaðilana í kringum okkur að umbótum og allar miða þær að því að gera ferðalag viðskiptavina okkar um svæðið sem best.“ 
 
Cyriel Kronenburg, aðstoðarforstjóri Aireon: Íslenska flugstjórnarsvæðið er mjög mikilvægt og tengir þrjár heimsálfur, Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Isavia gerir sér grein fyrir mikilvægi síns starfs og hefur alla tíð haft skýra sýn um að vera í fremstu röð hvað tækniframfarir varðar. Þau munu ekki aðeins nota Aireon kerfið til þess að auka öryggi, heldur hyggjast þau einnig nota varakerfi til þess að bæta við enn einu lagi af öryggi við kerfin sín sem eru nú þegar í fremstu röð. Við munum einnig vinna í nánu samstarfi við Isavia við að gera prófanir á rauntímakögun yfir Norðurpólnum. Isavia mun bráðlega geta fylgst með staðsetningu flugvéla í rauntíma um allt pólsvæðið, sem er áður óþekkt í flugsögunni.“