Hoppa yfir valmynd
21.3.2017
Isavia úthlutar styrkjum úr samfélagssjóði

Isavia úthlutar styrkjum úr samfélagssjóði

Isavia hefur úthlutað styrkjum til ellefu verkefna úr samfélagssjóði sínum. Verkefnin eru af fjölbreyttum toga en við val á styrkþegum er áhersla er lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári og ætíð berst nokkuð mikill fjöldi umsókna. Verkefnin sem fengu styrk að þessu sinni eru:

Suðurnesjadeild Ferðaklúbbsins 4x4 fékk styrk til að koma í veg fyrir gróðurskemmdir og landfok af völdum utanvegaaksturs með því að merkja leiðir og lagfæra tjón sem orðið er.

Líf styrktarfélag fékk styrk fyrir Globeathon styrktarhlaupið/-gönguna, alþjóðlegt átak til að vekja athygli á krabbameini í kvenlíffærum

Einstök börn fengu styrk til námskeiðshalds og meðferðarviðtala fyrir systkini barna með sjaldgæfa alvarlega sjúkdóma.

Rauði krossinn við Eyjafjörð fékk styrk til kaupa á peysum fyrir áfallateymi Rauða krossins sem sinnir meðal annars sálgæslu.

Team Rynkeby styrktarfélag mun í sumar hjóla frá Kaupmannahöfn til Parísar. Isavia styrkir ferðina, en styrkurinn rennur óskiptur til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Samgönguminjasafnið í Skagafirði hlaut styrk til reksturs safnsins. Samgönguminjasafnið geymir merkar minjar sem tengjast samgöngusögu Íslendinga, meðal annars bíla, rútu, mótorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og margt fleira.

Vesturfarasetrið á Hofsósi fékk styrk til verkefnisins Grettings from Iceland. Hópur Íslendinga fer til Vancouver og Victoria í Kanada og stendur fyrir menningarviðburðum með það að markmiði að auka samskipti og treysta sambandið við fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku.

Myllubakkaskóli fékk styrk til keppnisferðar á First Lego League Scandinavia Lego hönnunar keppnina sem haldin var í Bodø í Noregi.

Héraðssamband Strandamanna hlaut styrk til eflingar æskulýðsstarfs íþróttafélaga á Ströndum en Héraðssambandið samanstendur af Golfklúbbi Hólmavíkur, Sundfélaginu Gretti, Skíðafélagi Strandamanna og ungmennafélögunum Leifi heppna, Neista, Geislanum og Hvöt.

Bandalag íslenskra skáta heldur World Scout Moot 2017, heimsmót skáta á aldrinum 18-25 ára, á Íslandi. Skátamót ehf. hlaut styrk til verkefnisins.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hlaut styrk til að setja upp veglega sýningu um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur og sögulegt forsetakjör hennar. Sýningin verður opnuð í tengslum við vígslu nýbyggingar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og opnun Vigdísarstofu hinn 20. apríl.

Styrkir Isavia

Isavia styrkir góð málefni á hverju ári eftir afmarkaðri stefnu sem er í samræmi við samþykkt stjórnar félagsins. Styrkirnir skiptast í þessa þrjá flokka: Styrktarsjóður Isavia hjá Landsbjörgu veitir styrki til björgunarsveita um allt land. Sveitirnar eru styrktar til kaupa á hópslysabúnaði og er sérstök áhersla lögð á björgunarsveitir nálægt flugvöllum og fjölförnum ferðamannastöðum. Styrktarsjóðir Isavia hjá HÍ og HR veita styrki til nemenda á meistara- og doktorsstigi sem vinna að lokaverkefnum tengdum flugi eða ferðaþjónustu. Háskólarnir annast úthlutun úr sjóðunum. Í gegnum samfélagssjóð leggur Isavia sitt af mörkum til þess að metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins fái dafnað. Til að skerpa á málaflokknum hefur félagið lagt áherslu á: Forvarnarverkefni fyrir ungmenni, líknarmál, góðgerðarmál, umhverfismál og verkefni sem tengjast flugi.