Hoppa yfir valmynd
3.1.2014
Metfjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli í fyrra – Mikil aukning fjórða árið í röð

Metfjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli í fyrra – Mikil aukning fjórða árið í röð

Ráðgert er að reisa viðbyggingu með kjallara og tveimur hæðum við vesturálmu suðurbyggingar FLE, samtals nærri 5.000 fm að flatarmáli.



18,5 % aukningu spáð á næsta ári – 7,7% umferðaraukning í íslenska flugstjórnarsvæðinu
 
Árið 2013 var enn eitt metárið í umferð á Keflavíkurflugvelli. Alls fóru 2.751.743 farþegar um flugvöllinn á árinu eða 15,6% fleiri en árið 2012 sem einnig var metár með 12,7% heildaraukningu. Desember var stærsti jólamánuðurinn til þessa á Keflavíkurflugvelli með 30,1% farþegaaukningu milli ára.
 
Farþegar á leið til og frá landinu voru alls 2.281.968 árið 2013 sem er 14,8% aukning frá árinu á undan og skiptifarþegar, sem hafa viðdvöl á flugvellinum á leið milli Evrópu og Ameríku, voru alls 469.775 sem er 19,66% aukning.
 
Útlit er fyrir að farþegum um Keflavíkurflugvöll muni enn fjölga um 18,5% á þessu ári og eru umtalsverðar endurbætur ráðgerðar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að auka afkastagetu og þægindi flugfarþega.
 
7,7% aukning á flugstjórnarsvæðinu
 
Nýtt met var einnig slegið í fjölda flugvéla sem fóru um íslenska flugstjórnarsvæðið á liðnu ári. Alls flugu 116.326 flugvélar um svæðið og er það 7,7% aukning frá fyrra ári. Fjölgunina má rekja til aukinnar flugumferðar á leiðum yfir Atlantshaf og Norðurheimskaut ásamt legu háloftavinda sem nýtast flugumferð.
 
Íslenska flugstjórnarsvæðið er um 5,4 milljónir ferkílómetra að stærð og eitt hið stærsta í heimi. Það nær frá Norðurpól, suður fyrir Ísland, yfir Grænland og austur undir Svalbarða og Noreg og er af svipaðri stærð og allur landmassi Evrópu utan Rússlands. Isavia veitir flugleiðsöguþjónustu innan svæðisins frá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og fjarskiptastöðinni í Gufunesi.
 
Árangursríkt markaðsstarf
 
Isavia og aðrir ferðaþjónustuaðilar halda uppi öflugu markaðsstarfi og landkynningu sem skilað hefur miklum árangri með umtalsvert aukinn ferðatíðni og fjölgun flugfélaga á Keflavíkurflugvelli.  Isavia  leggur áherslu á aukna ferðatíðni allt árið og bætta nýtingu flugvallarmannvirkja utan háannatíma. Mikill vöxtur sem orðið hefur yfir vetrarmánuðina fellur vel að markmiðum félagsins. 
 
Umfangsmiklar framkvæmdir fyrirhugðar
 
Farþegafjölgun undanfarinna ára hefur verið mætt með ýmsum hætti til aukningar á afköstum flugstöðvarinnar og er fyrirhugað að ráðast  í stækkun hennar í vetur til þess að að auka afköstin enn frekar.
 
Ráðgert er að reisa viðbyggingu með kjallara og tveimur hæðum við vesturálmu suðurbyggingar flugstöðvarinnar, samtals nærri 5.000 fermetrar að flatarmáli. Þar verða sex brottfararhlið sem þjóna munu svonefndum fjarstæðum í grennd við flugstöðina og verður farþegum ekið til og frá flugvélum í  sérbyggðum rútubifreiðum.
 
Nýja viðbyggingin mun auka sveigjanleika flugstöðvarinnar og auðvelda afgreiðslu á háannatíma. Hönnun og byggingarform hússins verður einfalt og með þeim hætti að sem mestur sveigjanleiki náist í rekstri. Þá verður einnig fljótlega hafin stækkun farangursflokkunarkerfisins sem tvöfalda mun afkastagetu þess fyrir sumaráætlun þessa árs.