Hoppa yfir valmynd
11.10.2012

Metumferð um Keflavíkurflugvöll á liðnu sumri

- Mikilli aukningu spáð í vetur og næsta sumar

Nýliðið sumar sló öll fyrri met í farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli. 9% aukning varð frá fyrra ári á háannatímanum í júní, júlí og ágúst þegar um ein milljón farþegar lögðu leið sína um flugvöllinn. Farþegafjöldi heldur áfram að aukast með 18,9% aukningu í september og spáð er um 19,8% aukningu til áramóta. Gangi sú spá eftir verður yfirstandandi ár stærsta ferðaár á Keflavíkurflugvelli með um 2,4 milljón flugfarþega.
 
Millilandaflugfélögin hafa tilkynnt um verulega aukið sætaframboð í vetur og næsta sumar og hefur Icelandair boðað 15% heildarfarþegaaukningu á næsta ári. Samkvæmt áætlun félagsins verður vöxturinn meiri yfir vetrarmánuðina en yfir sumarið en félagið bætir við sex áfangastöðum í vetraráætlun. Fellur það vel að markmiðum Isavia um bætta nýtingu flugvallarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli utan háannatíma.
 
Iceland Express hefur boðað 30% aukningu á sætaframboði á næsta ári en félagið hyggst hefja á ný flug til Bandaríkjanna í vor. Áfangastöðum í Evrópu verður fækkað nokkuð en tíðni aukin.
 
Wow Air hefur tilkynnt um tvöföldun sætaframboðs með aukinni tíðni og nýjum áfangastöðum á næsta ári en félagið heldur uppi ferðum til 2 áfangastaða auk tímabundinna fluga á 5 áfangastaði í vetur.
 
Þá hyggjast Norwegian Air og easyJet fljúga til Íslands í vetur og hefur easyJet boðað fjölgun fluga í vetur og fleiri áfangastaði í sumaráætlun. SAS heldur sem fyrr uppi áætlunarflugi til Osló allt árið.
 
Isavia hefur mætt þessari miklu farþegaaukningu með margvíslegum hagræðingaraðgerðum í og við flugstöð Leifs Eiríkssonar. M.a. var sjálfsinnritunarstöðvum fjölgað verulega og ráðist í breytingar á afgreiðslusvæðum og biðsvæðum farþega og bifreiðastæðum. Hefur það aukið þægindi fyrir farþega og auðveldað flæði um flugstöðina. Starfinu verður haldið áfram eftir þörfum til þess að hámarka nýtingu flugstöðvarinnar og er fyrirhugað að taka ný biðsvæði farþega í notkun á næsta ári.