Hoppa yfir valmynd
18.12.2014
Norræni fjárfestingarbankinn lánar til framkvæmda Isavia á Keflavíkurflugvelli

Norræni fjárfestingarbankinn lánar til framkvæmda Isavia á Keflavíkurflugvelli

Isavia ohf. og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) undirrituðu í gærkvöld lánasamning að upphæð 32 milljónir evra (um 5 milljarða króna) vegna framkvæmda og endurbóta á Keflavíkurflugvelli sem miða að því að auka afköst flugvallarins.

Mikil fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll kallar á aukin afköst og er vinna þegar hafin við 5.000 fermetra stækkun flugstöðvarinnar með biðsölum og brottfararhliðum fyrir fjarstæði. Fleiri framkvæmdir eru í undirbúningi eins og fjölgun flughlaða og breytingar á innviðum flugstöðvarinnar. Áætlað er að framkvæma í afkastaaukandi verkefnum á flugvellinum fyrir um 15 milljarða króna (100 milljón evra) á árunum 2014-2016.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg bankastofnun í eigu átta norrænna ríkja: Danmerkur, Finnlands, Íslands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn annast fjármögnum verkefna á vegum opinberra aðila og einkaaðila innan og utan norrænu landanna og nýtur hæsta lánshæfismats hjá helstu matsfyrirtækjum heims, Standard & Poor’s og Moody’s.

„Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað jafnt og þétt. Fyrirhugaðar fjárfestingar sem Norræni fjárfestingarbankinn fjármagnar munu að hluta koma til móts við aukna eftirspurn eftir þjónustu og auka möguleika á samkeppni flugfélaga í flugi til og frá Íslandi“, segir Henrik Normann bankastjóri. 

Lán bankans til Isavia er veitt án sérstakra trygginga eða ábyrgðar frá eiganda og er til marks um tiltrú bankans á félaginu og rekstri þess.

„Miklar fjárfestingar eru nauðsynlegar á Keflavíkurflugvelli til þess að mæta síauknum kröfum um aukna afkastagetu og þjónustu. Áætlað er að gerð aðalskipulags og þróunaráætlunar fyrir flugvöllinn ljúki á næsta ári og þá skýrist betur hvaða leið verður farin til þess að mæta langtímaþörfum flugvallarins og notenda hans.  Við fögnum samstarfinu við Norræna fjárfestingarbankann og teljum það fyrirtækinu til framdráttar að vera með svo öflugan bakhjarl sem lánveitanda“, segir Björn Óli Hauksson forstjóri.

Stefán Friðriksson útlánastjóri á lánasviði Norræna fjárfestingarbankans, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Henrik Normann, bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans undirrita samninginn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

 

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Henrik Normann, bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans handsala samninginn.

Tölvuteiknuð mynd af yfirstandandi framkvæmdum við stækkun suðurhluta Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (má nálgast hér í hærri upplausn).