Hoppa yfir valmynd
12.2.2013
Styrktarsjóður Isavia: Afhending búnaðar til þriggja björgunarsveita

Styrktarsjóður Isavia: Afhending búnaðar til þriggja björgunarsveita

Hjálparsveit skáta í Reykjavík, Björgunarsveitin Kjölur, Kjalarnesi og Björgunarsveit Hafnarfjarðar fengu á föstudaginn 8. febrúar formlega afhentan búnað sem keyptur var fyrir framlag úr styrktarsjóði Isavia á síðastliðnu ári. Búnaðurinn er af ýmsum toga og mun nýtast sveitunum vel. Tilgangurinn er að efla sveitirnar í hlutverki þeirra í flugslysaáætlunum Isavia.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hlaut styrk til kaupa á fjórum töskum sem sameina allan neyðarbúnað sveitarinnar í hverju farartæki. Þar er nú að finna bráðaflokkunartösku, nýja súrefniskúta, blóðþrýstingsmæla, reykbombur, neyðarblys og fjöldamargt annað. Nýju töskurnar eru mjög handhægar og vel skipulagðar og þeim má breyta í bakpoka sem auðvelt er að grípa með sér.

Björgunarsveitin Kjölur hlaut styrk til kaupa á mjög handhægu bakbretti sem nýtist vel við þröngar aðstæður. Brettið má brjóta saman og stilla á lengdina með höfuðpúðum en það er borið í bakpoka og auðvelt er að koma hinum slasaða á brettið án mikillar hreyfingar.   

Björgunarsveit Hafnarfjarðar hlaut styrk til kaupa á sterkum og góðum sjúkrabörum og öðrum búnaði. Börurnar eru gerðar eftir nýrri hönnun með ýmsum  fylgibúnaði á borð við einangrunarpoka sem klæða má sjúklinga í til þess að halda á þeim hita. Sjúkrabörurnar eru auðveldar í flutningi og þær má nota við röntgen- og sneiðmyndatöku.

Um Styrktarsjóð Isavia

Styrktarsjóður Isavia var stofnaður árið 2011 með það fyrir augum að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Björgunarsveitirnar gegna lykilhlutverki í flugslysaáætlunum og hópslysaviðbúnaði landsins og allra hagur að björgunarsveitir séu sem best búnar. Sérstök áhersla er lögð á að styrkja sveitir nærri áætlunarflugvöllum Isavia til kaupa á tækjum og búnaði eða til þess að efla menntun og þjálfun björgunarsveitarmanna. Úthlutun úr Styrktarsjóði Isavia  fer fram árlega og  nam úthlutun á nýliðnu ári 12 milljónum króna til 18 björgunarsveita. Stefnt er að því að veita átta milljónum króna úr sjóðnum á þessu ári.

Frá vinstri: Richarður Þór Ásgeirsson þjónustustjóri  Reykjavíkurflugvallar, Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, Katrín Möller og Einar Ragnar Sigurðsson frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Vel skipulögð taska Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.
 

María Theodórsdóttir og Anna Lyck Filbert í björgunarsveitinni Kili sýna notkun nýja bakbrettisins. Richarður Þór Ásgeirsson þjónustustjóri Reykjavíkurflugvallar er í hlutverki sjúklings.
 

Kolbeinn Guðmundsson og Vigdís Björk Agnarsdóttir hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar sýna Bjarna Sighvatssyni verkefnisstjóra flugvallastoðþjónustu Isavia, Jóni Baldvini Pálssyni flugvallarstjóra Reykjavíkurflugvallar og Richarði Þór Ásgeirssyni þjónustustjóra einangrunarpokana sem fylgja nýju sjúkrabörunum.
 

Richarður Þór Ásgeirsson þjónustustjóri Reykjavíkurflugvallar ásamt Kolbeini Guðmundssyni og Vigdísi Björk Agnarsdóttur frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar.