Hoppa yfir valmynd
23.1.2017
Tengsl Keflavíkurflugvallar við atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi

Tengsl Keflavíkurflugvallar við atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi

Isavia og Kadeco héldu á dögunum opinn fund í Hljómahöll í Reykjanesbæ þar sem til umræðu voru tækifæri til atvinnuuppbyggingar í sjávarútvegi á nærsvæði Keflavíkurflugvallar. Keflavíkurflugvöllur sem hluti af flutningakerfinu til og frá landinu er í lykilhlutverki þegar kemur að áframhaldandi þróun og vexti í útflutningi ferskra sjávarafurða horft til framtíðar. Þannig er Keflavíkurflugvöllur mjög mikilvægur hlekkur í tveimur stærstu gjaldeyrisskapandi greinum landsins, ferðaþjónustu og sjávarútvegi.
 
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia opnaði fundinn fór yfir þróunina sem orðið hefur á vöruflutningum með flugi frá Keflavíkurflugvelli og aukningu á flutningi á ferskum fiski beint á markað á þeim fjölmörgu áfangastöðum sem flogið er beint til frá Keflavíkurflugvelli. Hann sýndi hversu mikil og hröð aukning hefði orðið í fjölda áfangastaða í heilsársflugi og benti á tækifærin sem væru til staðar hvað það varðaði. Hann sagði einnig frá því hvernig þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar var breytt til þess að koma til móts við þarfir sjávarútvegsins í sambandi við flutning á ferskum fiski með farþegaflugi.
 
Í samantekt um helstu niðurstöður fundarins, sagði Kjartan Eiríksson framkvæmdastjóri Kadeco að líkt og þekkt væri erlendis kæmi stór hluti af hagvexti þjóða til af þeim ólíku starfsgreinum sem nýttu sér nálægð við flugvelli. Góðar tengingar væru nauðsynlegur hluti af nútíma alþjóðaviðskiptum. Hraði og sveigjanleiki skiptu sífellt meira máli. Þetta væri augljóst af þeim virðisauka sem skapast hefði af ferskfiskútflutningi, þar sem hægt er að bregðast við kröfum markaðarins hverju sinni, jafnvel samdægurs. Sá virðisauki myndi ekki skapast nyti flugsins ekki við. Þær óvenju góðu flugtengingar sem íslendingar búi við, gjörbreyti í raun landfræðilegri stöðu okkar. Það eigi líka við um aðra alþjóðlega geira eins og til dæmis í rekstri gagnavera á Ásbrú, þó þeirra starfsemi sé ekki flugtengd með beinum hætti. Þau líti á stuttan ferðatíma og tíðni ferða t.d. á milli Keflavíkurflugvallar og London sem mikinn kost við sína staðsetningu.