Hoppa yfir valmynd
22.10.2015

Úthlutun í takt við EES-reglur

Í tilefni af fréttatilkynningu samkeppniseftirlitsins vill Isavia benda á nokkrar staðreyndir. 

Fjöldi afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli er ákvarðaður út frá afkastagetu flugvallarins. Úthlutunin fer fram eftir samræmdum EES reglum sem innleiddar hafa verið hér á landi í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins. Samkvæmt reglunum er úthlutunin á höndum sjálfstæðs samræmingarstjóra sem hefur úthlutað afgreiðslutímum í samræmi við þær reglur sem um úthlutun afgreiðslutíma gilda. Yfirvöld eða flugvallarrekendur viðkomandi landa mega ekki hafa afskipti af ákvörðunum hans varðandi úthlutunina og mega ekki breyta þeim úthlutunarreglum. EFTA dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í máli er varðar úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli að úthlutun þeirra væri í samræmi við ofangreindar reglur.  Nánar má lesa um það hér:

https://www.isavia.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/efta-domstollinn-urskurdar-ad-ees-reglur-gildi-um-uthlutun-afgreidslutima-flugvallahttp://www.isavia.is/frettir/efta-domstollinn-urskurdar-ad-ees-reglur-gildi-um-uthlutun-afgreidslutima-flugvalla/366/

Mál Samkeppniseftirlitsins hefur verið rekið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, héraðsdómi, EFTA-dómstólnum og hæstarétti og á öllum stigum leitt til þeirrar niðurstöðu að farið hefur verið að reglum við úthlutun afgreiðslutíma. Hafi Samkeppniseftirlitið athugasemdir við þessar reglur er rétt að það snúi sér til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um breytingu á þeim í stað þeirra sem vinna eftir reglunum.  

Þróunaráætlun unnin í góðri samvinnu við hagsmunaaðila

Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar miðar að því að auka afkastagetu flugvallarins á mestu álagstímum auk þess sem hún miðar að hagkvæmri uppbyggingu innviða flugvallarins. Hún er unnin í góðri samvinnu við alla helstu hagsmunaaðila, bæði flugfélög og önnur fyrirtæki sem starfa á og við flugvöllinn. Áætlunin mætir þörfum flugfélaganna sem fljúga til Keflavíkurflugvallar og þeim mikla áhuga sem er á Íslandi sem ferðamannastað. Henni er því ætlað að koma til móts við þarfir allra þeirra flugfélaga og farþega sem fara nú um Keflavíkurflugvöll auk framtíðarviðskiptavina. Það er því fráleitt að álykta að stækkunin sé hugsuð með hagsmuni eins flugfélags í huga umfram önnur.

Öflugt markaðsstarf eykur samkeppni

Isavia hefur það að markmiði að auka tíðni, og þar með samkeppni, í áætlunarflugi til og frá landinu. Til þess að ýta undir fjölgun flugfélaga býður Isavia nýjum flugfélögum tímabundinn afslátt af lendingargjöldum samkvæmt sérstöku hvatakerfi. Starfsmenn félagsins hafa undanfarin ár fundað með fjölmörgum flugfélögum til að kynna þjónustu flugvallarins og Ísland sem áfangastað. Markaðsstarfs félagsins hefur m.a. skilað sér með þeim hætti að nú halda um 20 flugfélög uppi áætlunarflugi til Íslands yfir sumarmánuðina og sjö til átta flugfélög allt árið. Til samanburðar voru fyrir áratug einungis sjö flugfélög með tímabundna áætlun og aðeins tvö með áætlun allt árið. Fullyrðingar um að Isavia stuðli ekki að samkeppni í áætlunarflugi eiga því ekki við rök að styðjast.