Hoppa yfir valmynd
7.4.2016
Vegna fréttar í bílablaði Fréttablaðsins um hækkun gjaldskrár bílastæða við Keflavíkurflugvöll

Vegna fréttar í bílablaði Fréttablaðsins um hækkun gjaldskrár bílastæða við Keflavíkurflugvöll

Í frétt á forsíðu bílablaðs Fréttablaðsins er fjallað um hækkun gjalda á bílastæðum við Keflavíkurflugvöll. Í greininni, sem skrifuð er út frá upplýsingum frá FÍB, er fullyrt að verðið sé hækkað til þess að byggja bílastæði fyrir bílaleigur. Það er alrangt, Isavia leggur mikla áherslu á að tekjur af einstökum þáttum í rekstri Keflavíkurflugvallar standi undir kostnaði við þá þjónustu sem þar er veitt. Þannig greiða bílaleigur þjónustugjöld sem notuð eru í aðstöðu þeirra, leigubílstjórar og rútufyrirtæki greiða fyrir þá þjónustu sem þeim er veitt og þeir sem koma á einkabíl greiða fyrir þá þjónustu sem þeim er veitt. Þessar upplýsingar komu skýrt fram í bréfi sem Isavia sendi FÍB um málið. FÍB heldur samt áfram rangfærslunum án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því.

Hér að neðan eru upplýsingar úr bréfinu sem sent var til FÍB áður en umfjöllun bílablaðsins, sem byggði á upplýsingum frá FÍB, var birt. Neðst er svo hlekkur á bréfið í heild sinni.

Isavia hefur ávallt haft það að markmiði að tekjur af einstökum þáttum í rekstri Keflavíkurflugvallar, þar á meðal af rekstri bílastæða, standi undir kostnaði við þá þjónustu sem þar er veitt. Er í því samhengi átt bæði við rekstur og fjárbindingu. Síðustu árin hefur afkoman ekki staðið nægjanlega vel undir rekstrinum og nú þegar verulegar framkvæmdir eru framundan við ný bílastæði var áríðandi að tryggja eðlilega afkomu af rekstri þeirra. Þessar framkvæmdir eru sérstaklega mikilvægar í ljósi þess að nýting á t.d. langtímastæðum er orðin allt að 96% í sex til sjö mánuði á ári, sem þýðir að færri en 100 af 2.100 langtímastæðum eru laus á álagstímum. Skammtímastæðin eru á sama tíma meira eða minna fullnýtt á álagstímum. Til að bæta þjónustu við bifreiðaeigendur og aðra ferðamenn hefur því verið ákveðið að fjölga bílastæðum. Framkvæmdir eru þegar hafnar við ný starfsmannastæði og núverandi starfsmannastæðum mun því fljótlega verða breytt í langtímastæði. Við þessa framkvæmd mun bílastæðum fyrir ferðamenn fjölga um 300.

Bréfið sem sent var FÍB er að finna hér.