Hoppa yfir valmynd
1.2.2016

Vegna umfjöllunar um flugturnsþjónustu á Akureyrarflugvelli

Vegna bréfs Steindórs Kristins Jónssonar, flugrekstrarstjóra og flugstjóra hjá Norlandair, og Þorkels Ásgeirs Jóhannssonar, þjálfunarstjóra hjá Mýflugi, sem fjölmiðlar hafa fjallað um, vill Isavia taka eftirfarandi fram:

Isavia vísar öllum ásökunum um að ekki sé gætt að öryggismálum á Akureyrarflugvelli á bug og hafnar því alfarið að sparnaðarsjónarmið ráði för í þessu máli.

Í nokkrar vikur hefur verið fyrirséð að mönnun flugumferðarþjónustu á Akureyri með eingöngu flugumferðarstjórum verði tímabundið nokkrum vandkvæðum háð. Ástæða vandkvæðanna er að búið var að ganga frá ráðningu í starf sem hafði losnað en áætlanir viðkomandi breyttust sem gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að ráða flugumferðarstjóra í stöðuna. Það stendur til bóta með þjálfun nýs starfsfólks en þangað til er það markmið Isavia að viðhalda óbreyttum þjónustutíma og hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar af öllum sem aðkomu eiga að málinu og ýmsum flötum á því verið velt upp.

Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að einungis yrðu fjórir starfsmenn til taks í stað fimm og gengu áætlanir þess tíma út á það að tryggja flugumferðarþjónustu á Akureyri með því að blanda saman ATC og AFIS þjónustu að því marki að bakvakt (2300 – 0700) vegna þjónustunnar yrði mönnuð tímabundið með AFIS og bakvaktarþjónustan auglýst sem slík. Nú þegar einn starfsmanna hefur ákveðið að hætta störfum 1.júní næstkomandi er fyrirséð að tímabundið verða einungis þrír starfsmenn til taks til að sinna þjónustunni óbreyttri. Ekki er hægt að reka þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins með þremur starfsmönnum. Hvíldartímaákvæði yrðu ekki uppfyllt, starfsmenn gætu ekki tekið sumarleyfi og lítið svigrúm yrði fyrir veikindaleyfi. Því þurfti að leita annarra lausna og sú lausn sem kom best út var að halda áfram flugumferðarstjórn á daginn en bjóða flugupplýsingaþjónustu á kvöldin og sem bakvakt. Þó verður einnig ávallt flugumferðarstjóri á bakvakt til þess að sinna ratsjárþjónustu ef aðstæður krefjast.

Þetta fyrirkomulag er eins og fyrr segir tímabundið en nú stendur yfir þjálfun á flugumferðarstjórum í turninn á Akureyrarflugvelli og mun þessari þjálfun verða lokið á vormánuðum 2017. Með þessu móti verður hægt að halda uppi þjónustustigi á meðan á þessu millibilsástandi stendur og tryggja öryggi flugs um Akureyrarflugvöll.

Sú tímabundna lausn sem horft er á fyrir flugumferðarþjónustu á Akureyri er eftirfarandi;

07:00 – 18:00     Flugumferðarstjórn

18:00 – 23:00     Flugupplýsingaþjónusta

23:00 – 07:00     Flugupplýsingaþjónusta  (bakvakt)

18:00 – 07:00     Flugumferðarstjórn         (bakvakt fyrir ratsjárþjónustu)

 

Allir áætlunarflugvellir á Íslandi utan Akureyrarflugvallar, Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar eru reknir með flugupplýsingaþjónustu í flugturni en ekki flugumferðarstjórn. Þetta er því fyrirkomulag sem er þekkt víða um land og flugmenn og flugfélög þekkja. Hins vegar verður þessi ráðstöfun flugupplýsingaþjónustu yfir rólegasta tíma sólarhringsins á Akureyrarflugvelli einungis tímabundin.

Fullyrðingar sem fram koma í bréfinu um að Isavia hafi í hyggju að skerða flugumferðarþjónustu og „öryggisstig“ Akureyrarflugvallar eiga ekki við rök að styðjast.