Hoppa yfir valmynd
6.10.2012
Vel heppnuð flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli

Vel heppnuð flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli

Isavia og viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu héldu umfangsmikilla flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli í dag, laugardaginn, 6. október.
 
Flugslysaáætlun segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar flugslyss á eða við flugvöllinn. Æfingin var almannavarnaæfing þar sem allir viðbragðsþættir vegna flugslyss voru prófaðir. Líkt var eftir brotlendingu flugvélar og æfð samvinna viðbragðsaðila með áherslu á samhæfingu og virkni áætlunarinnar.
Þátttakendur í æfingunni voru allir viðbragðsaðilar sem hlutverki gegna í flugslysaáætlun Reykjavíkurflugvallar; flugvallarstarfsmenn, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar, heilbrigðisþjónusta, björgunarsveitir, Rauðikrossinn, prestar, rannsóknaraðilar o.fl. ásamt samhæfingarstöð almannavarna og sjálfboðaliðum sem léku flugfarþega og aðstandendur – alls um 630 manns, og er það umfangsmesta flugslysaæfing sem haldin hefur verið hérlendis.
 
Líkt var eftir brotlendingu flugvélar með 100 manns innanborðs á flugvellinum og þurftu viðbragðsaðilar að leysa fjölbreytt verkefni á slysavettvangi og við greiningu, flutning og aðhlynningu fórnarlamba og aðhlynningu aðstandenda. Aðgerðarstjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu stýrir aðgerðum í umdæminu og var samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð í æfingunni til aðstoðar við vettvangsstjórn. Þá tóku um 200 heilbrigðisstarfsmenn á Landsspítala-háskólasjúkrahúsi virkan þátt í ummönnun slasaðra sem voru fluttir á bráðamóttöku líkt og um raunverulegt hópslys hefði væri að ræða.
 
Skipulag æfingarinnar miðaðist við endurskoðaða og nýuppfærða flugslysaáætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll og verður lærdómur sem dreginn verður af æfingunni færður í áætlunina og hún formlega gefin út í framhaldi þess.
 
„Reynslan sýnir að hætta á hópslysum á borð við flugslys er afar lítil en nauðsynlegt er að viðbragðsaðilar æfi áætlanir með reglubundnum hætti svo bregðast megi fumlaust við ef slys kynni að bera að höndum“, sagði Árni Birgisson samræmingarstjóri flugvalla hjá Isavia.
 
„Æfingin virðist hafa tekist í flesta staði mjög vel en henni líkur síðar í dag og er öflugt framlag allra þátttakenda mikils metið.“

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá æfingunni í dag.