Hoppa yfir valmynd
1.10.2014
Verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Auknar tekjur og bætt þjónusta

 

●        Aukið vöruúrval í verslunum og veitingastöðum

●        Auknar leigutekjur styðja við framtíðaruppbyggingu flugvallarins

●        Faglegt valferli skilar öflugum hópi rekstraraðila

●        Framkvæmdir hefjast í nóvember og lýkur næsta vor

Vali á rekstraraðilum í veitinga- og verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er lokið. Breytingarnar munu auka úrval og framboð vöru og veitinga í flugstöðinni og skila flugvellinum auknum leigutekjum. Við valið voru margir þættir metnir, svo sem þjónusta, vöruframboð, ýmsir fjárhags- og rekstrarþættir auk áherslu á tengingu við Ísland. 

Aukið vöruúrval í verslunum og veitingastöðum

Fjöldi metnaðarfullra tillagna barst, bæði frá aðilum sem eru nú með rekstur í flugstöðinni og öðrum. Sex verslanir og einn veitingastaður voru valin til að halda áfram rekstri en við bætast tvær nýjar verslanir og fjórir veitingastaðir. Breytingarnar munu auka vöruúrval í flugstöðinni til muna.

Veitingarekstur verður í höndum Joe Ísland, sem mun opna Joe and the Juice samloku- og safabar, og Nord í samstarfi við Lagardère Services, sem munu halda áfram rekstri veitingarstaðarins Nord auk þess að opna sjálfsafgreiðsluveitingastað, Segafredo kaffihús og bar með íslensku þema. 

Minni breytingar verða á verslunarrekstri í flugstöðinni. Verslanirnar 66°N, Bláa lónið, Elko, Eymundsson, Optical Studio og Rammagerðin munu allar halda áfram starfsemi. Við bætast verslun með tískufatnað þar sem boðið verður upp á þekkt erlend vörumerki ásamt íslenskri hönnun, rekin af Airport Retail Group, og sælkeraverslun á vegum Nord og Lagardère Services.

Metnaðarfullar tillögur

Samtals barst 71 tillaga og voru margar þeirra mjög vel unnar og metnaðarfullar. Eftir ítarlegt valferli þar sem tekið var tillit til fjölda þátta urðu 13 tillögur fyrir valinu. Meirihluti þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir valinu eru íslensk. Auk þeirra eru tvö alþjóðleg fyrirtæki með mikla reynslu af rekstri á alþjóðlegum flugvöllum.

Með þeim breytingum sem framundan eru í flugstöðinni verður verslunar- og veitingarými stækkað og veitingastöðum fjölgað þannig að flugstöðin mun geta þjónað þeim aukna fjölda farþega sem búist er við á næstu árum. Það hefur í för með sér verulega fjölgun starfa í flugstöðinni og auknar tekjur af verslunarsvæðinu sem styður við mikilvægar fjárfestingar sem framundan eru á flugvellinum. Framkvæmdir hefjast í nóvember og gert er ráð fyrir að þeim ljúki í vor.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:

„Við erum mjög ánægð með niðurstöðu valferlisins. Markmiðið var að auka arðsemi af verslun og þjónustu, opna markaðinn og stuðla að aukinni samkeppni með því að nota eins opið og gagnsætt ferli og kostur er til að velja rekstraraðila. Þá lögðum við áherslu á að tenging við Ísland yrði sýnileg í vöruúrvali og veitingum. Okkar mat er að við höfum náð þessum markmiðum og gott betur. Við gerum ráð fyrir að tekjur okkar af þessum hluta verslunarsvæðisins aukist um 60%. Þessar nauðsynlegu framkvæmdir munu því borga sig upp með tekjuaukningunni á um tveimur og hálfu ári og við öflum auk þess tekna fyrir framkvæmdir sem við þurfum að ráðast í í fyrirsjáanlegri framtíð.“

„Það er ánægjulegt að sjá hversu vel íslensk fyrirtæki stóðu sig í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem ferlið fól í sér og það sýnir hversu samkeppnishæf þau eru. Að sama skapi er mikill áhugi öflugra alþjóðlegra fyrirtækja á rekstri í flugstöðinni mikið styrkleikamerki fyrir Keflavíkurflugvöll.“

 

Horft á inngang að verslunum (hönnunardrög). Efnisval mun endurspegla íslenskt landslag. 

 

Björn Óli Hauksson á blaðamannafundi vegna forvalsins á Hótel Natura í dag.

Hrönn Ingólfsdóttir verkefnastjóri forvalsins greinir frá valferlinu á blaðamannafundinum í dag

Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar greinir frá niðurstöðum forvalsins á blaðamannafundinum í dag.