Umhverfisstefna Isavia

 
Isavia hefur markað sér umhverfisstefnu og er að vinna  með virkum og skipulögðum hætti að ýmsum þáttum í samræmi við hana.  

Umhverfisstjórnun (ISO14001)

Vinna við ISO14001 vottun valinna flugvalla innan vébanda Isavia er komin vel á veg. ISO14001 er alþjóðlegur staðall og það umhverfisstjórnunarkerfi sem er mest notað í heiminum í dag. Framkvæmdar hafa verið umhverfisúttektir á flugvöllum fyrirtækisins í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum þar sem mikilvægir umhverfisþættir í starfsemi Isavia hafa verið skilgreindir, áhrif þeirra á umhverfið metin og sett fram aðgerðaáætlun sem tryggir stöðuga vöktun og stýringu þeirra umhverfisþátta. 
 

ACA (Airport Carbon Accredited) vottun

Alþjóðleg samtök flugvalla (ACI) standa saman að kerfi sem miðar að því að minnka kolefnislosun á flugvöllum.  Keflavíkurflugvöllur hefur lokið fyrsta skrefinu í þessu kerfi. Þar með hafa verið greind umhverfisáhrif reksturs flugvallarins á nærumhverfið og kolefnisspor starfseminnar kortlagt.
 
Verkefnið skiptist í fjögur stig; kortlagningu kolefnisspors, markmiðasetningu og minnkun kolefnislosunar, minnkun kolefnislosunar í samstarfi við þriðja aðila (annarra rekstraraðila á flugvellinum) og lokastigið er kolefnisjöfnun flugvallarins. 
 
Kolefnisvottun Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI Airport Carbon Accreditation) hefur fengið viðurkenningu fjölda stofnana, m.a. frá Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP), Alþjóðaflugmálastofnun (ICAO) og Evrópusambandinu. Alls hafa 156 flugvellir um allan heim fengið vottun ACA, en um þá fara 32,6% flugumferðar í heiminum. Keflavíkurflugvöllur er á meðal 106 vottaðra flugvalla í Evrópu. 
 

Aðgerðir í loftslagsmálum

Forstjóri Isavia skrifaði undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum sem Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrg fyrirtækja, efndu til í nóvember 2015, en yfir eitt hundrað fyrirtæki skrifuðu undir. Yfirlýsingin er hugsuð sem hvatning til fyrirtækja um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Fulltrúar fyrirtækjanna eru að vinna saman að mælingum fyrir sína starfsemi og hafa sett sér markmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030.  

Markmið Isavia:

  • Árið 2015 var losun gróðurhúsalofttegund 0,6 kg/CO2 ígildi á hvern farþega. Það er markmið Isavia að árið 2020 hafi losun gróðurhúsalofttegunda lækkað um 10% á hvern farþega miðað við árið 2015 og um 29% árið 2030 miðað við árið 2015.
  • Árið 2015 var hlutfall flokkaðs úrgangs 19% hjá Isavia og losun óflokkaðs úrgangs um 0,17 kg. Á hvern farþega.  Það er markmið Isavia að hlutfall flokkaðs úrgangs verði 70% árið 2030 og að magn flokkaðs úrgangs á farþega hafi lækkað um 63%.

 

Græn skref

Isavia er þáttakandi í verkefninu um Græn skref, sem Umhverfisráðuneytið stendur að og snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti.  Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi hjá Isavia, m.a. flokkun á sorpi og minni notkun s.s. á pappír, hita, rafmagni og eldsneyti. Nokkrar starfsstöðvar fyrirtækisins hafa lokið við að uppfylla fyrsta skrefið og fyrstu hafa uppfyllt annað Græna skrefið.  Isavia skilar grænu bókhaldi.
 

Grænás stuðlar að endurnýtingu

Á lager Keflavíkurflugvallar við Grænás er tekið við húsbúnaði og nýtilegu byggingarefni sem verður til við breytingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öðrum byggingum sem tilheyra flugvellinum. Búnaður er endurnýttur ef þarf varahluti eða sendur á aðra flugvelli.

 
Fyrirtækið bendir starfsfólki sínu og gestum á að huga sífellt að lágmörkun umhverfisáhrifa, svo sem með notkun á vistvænum ferðamáta til og frá vinnu og á fundi. Einnig minnum við á að sorp er flokkað á skrifstofum Isavia.
 
 
Isavia gullmerki PWC Tern Systems Fríhöfnin