Hoppa yfir valmynd

Uppbygging

Keflavíkurflugvöllur

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á sama tíma hefur fjöldi farþega um flugvöllinn þrettánfaldast, farið úr 750 þúsund fyrsta árið í 9,8 milljónir árið 2018. Það er langt umfram grunnfarþegaspá uppbyggingaráætlunar Keflavíkurflugvallar sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar var gert ráð fyrir 8,8 milljón farþegum árið 2025 og 13,8 milljón farþegum 2040.Það er því ljóst að til þess að uppfylla alþjóðlega þjónustustaðla nægilega vel þarf að stækka flugvöllinn og er uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar gerð til að meta þessa þörf. Byggt er á umfangsmikilli farþegagreiningu. Verkefnum áætlunarinnar er skipt í flugstöðvar- og flugvallarkerfisverkefni. Flugstöðvarverkefnin samkvæmt uppbyggingaráætluninni eru fjögur talsins:

  1. Áframhaldandi breikkun landgangs á milli norður- og suðurbygginga, með nýjum landamærum og stækkun veitingasvæðis.
  2. Norðurbygging stækkuð til austurs með rými fyrir farangursskimun.
  3. Nýr landgangur með allt að 17 flugvélahliðum með landgöngubrúm ásamt hliðum fyrir fjarstæði.
  4. Ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega í nýrri norðurbyggingu.

Flugvallarkerfisverkefnum er ætlað að auka afköst og öryggi flugbrautakerfis og greiða úr flöskuhálsum sem þar gætu myndast. Undir þau verkefni falla afísingarhlað, tvær nýjar akbrautir, flýtirein og aðrar tengingar flughlaðs og akbrauta.

Á árinu 2018 hófst hófst hönnun á fyrsta flugstöðvarverkefninu, hönnun nýrrar tengibyggingar milli norður- og suðurbygginga flugstöðvarinnar. Framkvæmdir við hana gætu hafist 2020. Um er að ræða u.þ.b. 30 þúsund fermetra framkvæmd. Þá er útboð vegna verkefnastjórnar á hönnun og byggingu nýs landgangs í undirbúningi.


aðrir flugvellir og lendingastaðir

Það var lítið um nýframkvæmdir á öðrum flugvöllum árið 2018, en unnið að viðhaldsframkvæmdum á áætlunarflugvöllum og lendingarstöðum um allt land. 

Við Reykjavíkurflugvöll voru felld nokkur tré í Öskjuhlíð sem sköguðu upp í aðflug og unnið er að viðhaldi á byggingum á flugvellinum. Einnig var farið í brýnustu verkefni á yfirborði flugbrauta.

Á Vestmanneyjaflugvelli varð tjón á mannvirkjum og búnaði vegna eldingaveðurs sem kallaði á kostnaðarsamar viðgerðir.

Á Akureyrarflugvelli var unnið að hönnun og undirbúningi vegna uppsetningar á ILS aðflugsbúnaði á norðurenda flugbrautar.

Á Egilsstaðaflugvelli var unnið að viðgerð á þaki flugstöðvar.

Á Ísafjarðarflugvelli var endurnýjaður veðurbúnaður á Arnarnesi.

Fjárfestingar í tækjum voru tæplega 200 milljónir á árinu. Lang stærsti hlutinn var á Egilsstaðaflugvelli en þar voru endurnýjuð tæki fyrir rúmlega 150 milljónir króna, m.a. var keypt nýtt sameyki og sanddreifari. Á Akureyrarflugvelli var keyptur nýr sanddreifari. Á Reykjavíkurflugvelli var eftirlitsbifreið endurnýjuð. Á Ísafjarðarflugvelli var keyptur nýr brautarþjónn.

Flugleiðsögusvið

Flugleiðsögusvið lagði af stað á árinu með verkefni um endurnýjun fluggagnakerfis flugstjórnarmiðstöðvarinnar. Nýja kerfið mun leysa af núverandi kerfi sem hefur verið í rekstri í um 18 ár og er að nálgast hámarksafkastagetu. Skilgreiningu er lokið og búið að gefa út sjö ára uppfærsluáætlun sem gerir ráð fyrir fyrstu notkun í yfirflugi árið 2024. Kerfið verður hannað af Tern Systems, dótturfélagi Isavia, í samvinnu við flugleiðsögusvið Isavia og nefnist Polaris.

Í ár lauk endurnýjun vinnuaðstöðu flugstjórnarmiðstöðvar. Verkefni var unnið í mörgum þrepum til að lágmarka rask og styðja við kröfur flugstjórnarmiðstöðvar hverju sinni, t.d. við uppsetningu vinnuborða við notkun ADS-B kögunar í vestursektor og viðbót vinnuborða fyrir aukna umferð í aðflugi.

Markmið verkefnis var að endurhanna og uppfæra vinnuaðstöðu í flugstjórnarsal til að standast nútímakröfur um vinnuvernd og vinnuvistfræði. Áhersla var lögð á sveigjanlega vinnuaðstöðu, að bæta við vinnustöðvum með betri nýtingu á gólfplássi og hönnun sem gerir framtíðarstækkun viðráðanlega.

Helstu skilaafurðir voru endurhönnun fyrirkomulags flugstjórnarmiðstöðvar, uppsetning og viðbót nýrra sérhannaðra vinnuborða fyrir flugumferðarstjóra og bygging nýs vinnusvæðis fyrir varðstjóra og fluggagnafræðinga. Verkefnið var viðamikið þar sem auk endurnýjun vinnuaðstöðu voru endurhönnuð og uppfærð loftræsing, raflagnir, netlagnir, gólfefni, lýsing og hljóðvist. Í dag er aðgangur að 20 vinnustöðvum flugumferðarstjóra auk aðstöðu fyrir varðstjóra og fluggagnafræðinga.