Hoppa yfir valmynd

Öryggi, heilsa og vinnuvernd

Öryggi

Mikil áhersla er lögð á öryggi starfsmanna á vinnustað. Ef slys verður er það skráð sérstaklega og sér vinnuverndarfulltrúi Isavia um að greina slysið og leggur til úrbætur á aðbúnaði eða verklagi til að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig. Slys eru skráð rafrænt og einnig var sérstakt átak gert í að gera starfsmenn meðvitaðri um „næstum slys“ með sérstökum hnapp á innri vef félagsins og plakötum var komið fyrir í hverju horni. Öryggisnefnd sem í sitja fulltrúar starfsmanna og fyrirtækisins fjalla um öll mál sem tengjast vinnuvernd starfsmanna. Þrettán öryggisfulltrúar og öryggistrúnaðarmenn mynda öryggisnefnd. Þessir fulltrúar sjá um eftirfylgni og eftirlit gangvart öryggi og heilsu starfsfólks. 

Tilkynningum um vinnuslys hefur fækkað milli ára en fyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á forvarnir vegna vinnuslysa. Á síðasta ári voru 56 vinnuslys tilkynnt, þar af voru ellefu fjarveruslys.Sérstök áhersla var á árinu á gildið öryggi, með það að leiðarljósi að efla öryggisvitund starfsmanna Isavia. Haldin var öryggisvika í október þar sem boðið var uppá fjölbreytta viðburði til að vinna í öryggisátt og auka öryggisvitund starfsmanna. Stjórnendur og aðrir starfsmenn tóku virkan þátt á starfstöðvum Isavia um allt land. Meðal annars var boðið uppá sérstaklega vinsælan viðburð, svokallaða FOD (Foreign Object Debris) göngu þar sem gengið er um hlað og flugbrautir til að tryggja að engir óæskilegir hlutir sem skapað geta mikla hættu séu til staðar á svæðinu. Einnig var boðið uppá ýmsa fyrirlestra á starfstöðvum og innri vef Isavia s.s um flugbrautaöryggi, virkni hjartastuðtækja svo eitthvað sé nefnt. Þátttaka á þeim viðburðum sem haldnir voru var mjög góð enda er öryggi mjög mikilvægur hluti af starfi starfsfólks Isavia.

HEILSA OG VINNUUMHVERFI

Lögð er áhersla á að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi og sýna með þeim hætti fram á, að félaginu er annt um heilsu og öryggi starfsmanna sinna. Markmið félagsins er að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks, að búa starfsmönnum gott vinnuumhverfi og að mæta andlegum, félagslegum og líkamlegum þörfum starfsmanna á vinnustaðnum. Félagið styrkir starfsmenn sína fjárhagslega til að stunda sína líkamsrækt.

Starfsmenn geta leitað til þjónustuvers Vinnuverndar og fengið ráðleggingar vegna eigin veikinda eða fjölskyldumeðlima. Einnig eru hjúkrunarfræðingar Vinnuverndar reglulega til viðtals á stærstu starfsstöðvum félagsins.

Markmið félagsins er að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks, að búa starfsmönnum gott vinnuumhverfi og að mæta andlegum, félagslegum og líkamlegum þörfum starfsmanna á vinnustaðnum.

iso 45001

Í lok árs 2018 var ákveðið að innleiða ISO45001 öryggisvottun á starfsemi Tækni- og eignasviðs og ljúka þeirri innleiðingu í ár. Verkefnið er stórt og snýr ekki einungis að því að smíða öryggisstjórnkerfi fyrir sviðið heldur einnig að auka þátttöku starfsmanna í öryggismálum og auka öryggisvitund þeirra sem starfa fyrir Isavia.

Persónuvernd

Innleiðingu nýrra persónuverndarlaga, sem tóku gildi sumarið 2018, hófst hjá Isavia 2017 og er sem stendur í fullri framkvæmd. Kannað var hvaða breytingar ný löggjöf myndi fela í sér og hvaða áhrif hún hefði á starfsemi Isavia. Persónuupplýsingar voru kortlagðar og vinnsluskrár gerðar til að halda utan um meðferð slíkra upplýsinga.  Innleiðingaráætlun var mótuð og persónuverndarfulltrúi var skipaður.

Starfsmenn hafa setið persónuverndarnámskeið. Komið hefur verið á fót ferli er snýr að umsóknum einstaklinga um persónuupplýsingar sem Isavia býr yfir. Nú þegar hefur ein umsókn verið afgreidd að fullu og þrjár eru í ferli.

Áætlað er að innleiðing persónuverndar verði lokið á haustmánuðum 2019 og að stjórnkerfi persónuverndar verði þá tilbúið til rekstrar.