Hoppa yfir valmynd

Samfélagsþátttaka

Isavia hefur með höndum rekstur og viðhald á innviðum sem er grunnur að flugsamgöngum landsins, tengingum við umheiminn og flugi á milli þriggja heimsálfa á stóru svæði. Flugvellir á Íslandi eru mikilvæg samgöngumannvirki. Af þeim er Keflavíkurflugvöllur stærsta gáttin inn í landið og sérstaklega mikilvægur fyrir flutning á farþegum og vörum til og frá landinu í flugi. Starfsemin Isavia skiptir þar af leiðandi miklu máli fyrir þjóðarhag og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að haga störfum sínum á öruggan og skilvirkan hátt í sátt við samfélagið.

Isavia er með stefnu í samfélagsábyrgð þar sem áherslurnar eru í samræmi við heildarstefnu fyrirtækisins. Félagið vinnur að og tekur þátt í verkefnum sem tengjast henni með margvíslegum hætti. Þessi verkefni eiga það sameiginlegt að stuðla að því að við séum hluti af góðu ferðalagi farþega, viðskiptavina og annarra haghafa.

Starfsemi Isavia skiptir þar af leiðandi miklu máli fyrir þjóðarhag og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að haga störfum sínum á öruggan og skilvirkan hátt í sátt við samfélagið.

STEFNA Í SAMFÉLAGSÁBYRGÐ

Stefna félagsins í samfélagsábyrgð er grundvölluð meðal annars á væntingum um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem fram koma í almennri eigendastefnu ríkisins, lögum um ársreikninga og lögum um opinber innkaup.


GLOBAL COMPACT SÁTTMÁLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Isavia er aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact). Með þátttöku skuldbindur félagið sig til þess að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Isavia skuldbindur sig jafnframt til að taka þátt í verkefnum sem styðja við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og birta opinberlega upplýsingar um samfélagsábyrgð félagsins í samræmi við viðmið UN Global Compact og GRI.

Jafnréttissáttmáli UN women

Isavia hefur undirritað jafnréttissáttmála UN Women sem er alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbindur fyrirtækið sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins, sýna samfélagslega ábyrgð og hafa frumkvæði í málaflokknum. Í sáttmálanum eru sjö viðmið sem fyrirtæki og stofnanir hafa að leiðarljósi til að efla jafnrétti og auka þátt kvenna í atvinnulífinu. Undirritun sáttmálans er eðlilegt framhald af annarri vinnu sem fyrirtækið er að vinna undir merkjum samfélagslegrar ábyrgðar og fellur að markmiði félagsins um jafnrétti kynjanna.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Isavia hefur sett sér markmið tengt stefnumótun félagsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstök áhersla hefur verið á heimsmarkmiðin heilsa og vellíðan (númer 3), jafnrétti kynjanna (númer 5 ), ábyrga neysla og framleiðsla (númer 12), aðgerðir í loftslagsmálum (númer 13) og samvinnu um markmiðin (númer 17). Fyrir árið 2019 ætlar Isavia að halda áfram áherslum sínum á fyrrgreind markmið ásamt áherslu á markmið um góða atvinnu og hagvöxt (númer 8).


gri - Global Reporting Initiative

Árs- og samfélagsskýrsla Isavia er nú gefin út í þriðja sinn. Í ár er skýrslan gefin út í fyrsta sinn samkvæmt GRI Standards: Core viðmiðum ásamt GRI-G4 sérákvæðum um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Markmið með útgáfu skýrslunnar er að gefa dýpri mynd af starfsemi félagsins og áhrifum þess á samfélagið. Upplýsingar í skýrslunni miðast við árið 2018..

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð

Isavia er virkur aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem hefur það markmið að efla samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja, auka vitund í samfélaginu og hvetja til rannsókna á þessu sviði.

Ábyrg ferðaþjónusta

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.

íslenski ferðaklasinn

Stofnun Íslenska ferðaklasans markaði tímamót og nýbreytni í íslenskri ferðaþjónustu. Hér er um að ræða þverfaglegt samstarf sem styrkir og eflir greinina með markvissum hætti. Klasasamstarfið er hrein viðbót við þá starfsemi sem unnin er á sviði ferðamála, s.s. eins og hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Íslandsstofu, svo dæmi séu nefnd, en kemur ekki í stað þeirra. Klasinn stuðlar að auknu samstarfi við þessa aðila sem og aðra um land allt.

Startup Tourism

Isavia er einn af bakhjörlum verkefnisins Startup Tourism sem er vettvangur fyrir sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu til að veita viðskiptahugmyndum brautargengi. Tíu fyrirtæki eru valin til þátttöku í svonefndum viðskiptahraðli, og fá forsvarsmenn þeirra tíu vikna þjálfun og leiðsögn hjá ýmsum sérfræðingum til að þróa viðskiptahugmyndir sínar.

Isavia á aðild að stjórnstöð almannavarna og er í lykilhlutverki vegna viðbragðsáætlana um leit og björgun á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Viðbragðsæfingar á flugvöllum eru mikilsverður þáttur í viðbúnaði Isavia og ekki síður almannavörnum á Íslandi og þróun þeirra. Að jafnaði eru haldnar fjórar flugslysaæfingar á ári víða um land. Þátttaka er undantekningarlaust góð og taka að jafnaði yfir 1.000 manns þátt í þessum æfingum frá öllum viðbragðsaðilum auk almennings. Frá því félagið hóf að halda reglubundnar æfingar á flugvöllum hafa viðbragðsáætlanir almannavarna vegna hópslysa þróast til samræmis við verklag sem notast er við á æfingum á flugvöllum. Æfingar félagsins hafa þannig orðið samráðsvettvangur viðbragðsaðila til þróunar á þekkingu og verklagi sem fest hefur verið í reglugerðir og lög um almannavarnir.

Árið 2018 voru haldnar flugslysaæfingar á Vopnafjarðarflugvelli, Bíldudalsflugvelli, Húsavíkurflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Þátttakendur á æfingum ársins voru um 550 manns frá öllum viðbragðsaðilum. Æfingarnar eru mikilvægur samfélagslegur þáttur þar sem áfallaþol samfélagsins er kannað og æft.


Viðbragðsæfingar á flugvöllum eru mikilsverður þáttur í viðbúnaði Isavia og ekki síður almannavörnum á Íslandi og þróun þeirra.

samfélagssjóður isavia

Samfélagssjóðurinn veitti fjölda styrkja á árinu til margvíslegra málefna. Við úthlutun er lögð áhersla á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Félagið styrkir einnig ýmis góðgerðarsamtök með því að veita aðstöðu fyrir söfnunarbauka á flugvöllum.

háskólastyrkir isavia

Styrkir hafa verið veittir til nemenda á meistara- og doktorsstigi Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. Innan flug- og ferðaþjónustugeirans er fjöldi spennandi viðfangsefna til rannsókna, meðal annars á sviði verkfræði, tæknifræði, tölvunarfræði, lögfræði, ferðamálafræði, viðskipta- og hagfræði. Frekari upplýsingar um styrki til háskólanema má fá á skrifstofum Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Styrktarsjóður Isavia og Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur verið starfræktur frá árinu 2012 og hefur fram til 2018 úthlutað nærri 70 milljónum króna til björgunarsveita. Í upphafi árs 2018 var skrifað undir samning við Rauða krossinn á svipuðum nótum. Isavia hefur komið að uppsetningu hópslysabúnaðar um allt land í gegnum þessa samstarfsaðila.  Hægt er að grípa til búnaðarins ef slys verða eða þegar þarf að skjóta skjólshúsi yfir fólk í fjöldahjálparstöðvum. Kerrurnar voru afhentar björgunarsveitum og Rauða krossinum víða um land árið 2018.

Samstarf Isavia, Rauða krossins og Slysavarnafélagsins hefur verið farsælt og eru sjálfboðaliðar félaganna mikilvægur þáttur í viðbragðskerfi flugvalla.