Hoppa yfir valmynd

Uppbygging og þróun

 

Keflavíkurflugvöllur

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á fyrsta ári flugstöðvarinnar fóru 750 þúsund farþegar um flugstöðina. Árið 2019 fóru 7,25 milljónir farþega um flugstöðin. Það er umfram grunnfarþegaspá uppbyggingaráætlunar Keflavíkurflugvallar sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar var gert ráð fyrir 8,8 milljón farþegum árið 2025 og 13,8 milljón farþegum 2040.Það er því ljóst að til að uppfylla alþjóðlega þjónustustaðla nægilega vel þarf að auka afkastagetu flugvallarins og er uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar gerð til að meta þessa þörf. Byggt er á umfangsmikilli farþegagreiningu. Verkefnum áætlunarinnar er skipt í flugstöðvar- og flugvallarkerfisverkefni. Flugstöðvarverkefnin samkvæmt uppbyggingaráætluninni eru eftirfarandi:

  1. Áframhaldandi breikkun landgangs á milli norður- og suðurbygginga, með nýjum landamærum og stækkun veitingasvæðis.
  2.  Nýr landgangur með allt að 17 flugvélahliðum með landgöngubrúm ásamt hliðum fyrir fjarstæði.
  3. Ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega í nýrri norðurbyggingu, ásamt rými fyrir farangursskimun.

Flugvallarkerfisverkefnum er ætlað að auka afköst og öryggi flugbrautakerfis og greiða úr flöskuhálsum sem þar gætu myndast. Undir þau verkefni falla afísingarhlað, nýjar akbrautir, flýtireinar og aðrar tengingar flughlaðs og akbrauta.

Á árinu 2019 hélt hönnun nýrrar tengibyggingar milli norður- og suðurbygginga flugstöðvarinnar áfram. Um er að ræða u.þ.b. 35 þúsund fermetra framkvæmd og er áætlað að framkvæmdir hefjist á fyrrihluta árs 2021. Útboði vegna verkefnaumsjónar og verkeftirlits vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli lauk á árinu, með langtímasamningi við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace.

Gerð var krafa um yfirgripsmikla þekkingu og reynslu bjóðenda hvað varðar sambærileg verkefni á stórum alþjóðlegum millilandaflugvöllum en Mace hefur umfangsmikla reynslu, þar á meðal á Heathrow flugvelli í London og Schipol flugvelli í Amsterdam. Þá var gerð krafa um að bjóðendur yrðu, á líftíma samningsins, í samstarfi við innlendan aðila og í tilfelli Mace þá valdi félagið verkfræðistofuna Verkís til samstarfs.

Mace mun annast verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna komandi framkvæmda við m.a. byggingu austurálmu sem er nýr landgangur til austurs og byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu. Þá mun félagið einnig veita ráðgjöf við aðrar framkvæmdir Isavia á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal við tengibyggingu vegna breikkunar á landgangi milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Fyrsta verkefni félagsins verður að veita ráðgjöf við tengibygginguna, en ráðgert er að framkvæmdir við hana muni hefjast á næsta ári.

Enn er talsvert í að framkvæmdir við austurálmu og nýja flugstöð geti hafist enda kalla framkvæmdir af þessari stærðargráðu á nokkurra ára undirbúningsvinnu.

Uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli

Isavia innanlands

Það var lítið um nýframkvæmdir á öðrum flugvöllum árið 2019, en unnið að viðhaldsframkvæmdum á áætlunarflugvöllum og lendingarstöðum um allt land.

Við Reykjavíkurflugvöll var farið í malbiksviðhald á flughlöðum.

Á Akureyrarflugvelli var lokið við vinnu vegna uppsetningar á ILS búnaði sem tekinn var í notkun í lok janúar 2020.Einnig var flugbraut yfirsprautuð og malbiksviðhald á flughlaði.

Á Egilsstaðaflugvelli var farið í endurnýjun á skrifstofuhúsnæði og þakviðgerðir.

Á Bíldudal var lagt nýtt yfirlag á flugbraut, akbraut og flughlað og á Reykhólum var lagt nýtt malarslitlag.

Isavia ans

Áfram var unnið að verkefni sem snýr að endurnýjun fluggagnakerfis flugstjórnar-miðstöðvarinnar. Nýja kerfið mun leysa af núverandi kerfi sem hefur verið í rekstri í um 18 ár og er að nálgast hámarksafkastagetu. Skilgreiningu er lokið og búið að gefa út sjö ára uppfærsluáætlun sem gerir ráð fyrir fyrstu notkun í yfirflugi árið 2024. Kerfið verður hannað af Tern Systems, dótturfélagi Isavia ANS, í samvinnu við Isavia ANS og nefnist Polaris.

Verið er að innleiða nýtt kerfi hjá Upplýsingaþjónusta flugmála sem annast útgáfu Flugmálahandbókar Íslands. Verkefnið mun bæta framsetningu forflugsupplýsinga sem gagnast flugrekendum en þó aðallega einkaflugmönnum.

Vararafstöðvar flugstjórnarmiðstöðvar sem einnig þjóna Reykjavíkurflugvelli voru endurnýjaðar á árinu. Verkefnið var viðamikið og var framkvæmt í nokkrum áföngum til að lágmarka áhrif á þjónustu, bæði flugleiðsögu og flugvallar.

Undir lok árs var hljóðvarnarsvæði vegna véla sem fara frá Keflavík tekin í notkun. Markmið þeirra er að draga úr hljóðmengun fyrir íbúa Reykjanesbæjar.


Skipulag og þróun

Á árinu 2019 var gefin út uppbyggingaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll og unnið að uppfærslu þróunaráætlunar. Í þróunar- og uppbyggingaráætlunum flugvallarins er stækkunaráformum miðlað til nærbyggðar. Efnahagsleg áhrif flugvallarins fyrir nærumhverfið og íslenskt hagkerfi í heild sinni eru mikil og mikilvægi flugvallarins fyrir aðalatvinnuveg þjóðarinnar, ferðaþjónustuna, sömuleiðis. Væntingar hagaðila til farsællar uppbyggingar eru miklar og í uppbyggingaráætlun 2019-2026 er sérstaklega fjallað um kostnaðar- og tímaáætlanir framkvæmda auk þess sem breytingar í farþegamynstri og flugumferð eru greindar í samhengi við uppbyggingaráform.

Uppbyggingar- og þróunaráætlanir flugvallarins eru valfrjálsar enda ekki þekktar í íslenskum lögum eða skipulagsumhverfi en þekkjast erlendis frá. Markmið þeirra er að miðla framtíðarsýn flugvallarins og sýna fram á fasaskiptar, sveigjanlegar áætlanir sem taka mið af farþega- og umferðaspám og miðla upplýsingum um uppbyggingaráform til hagsmunaaðila. Áætlanagerðin er nálgun sem Isavia hefur valið til að tefla fram uppbyggingar- og þróunaráformum. Við mat á umhverfisáhrifum gengur flugvöllurinn lengra og sýnir fram á heildaráhrif uppbyggingaráætlunar sem er umfram lög um mat á umhverfisáhrifum.

Uppbyggingar- og þróunaráætlanir flugvallarins eru samþykktar af stjórn Isavia eftir að hafa verið teknar fyrir af framkvæmdastjórn. Þróunaráætlun er framtíðarsýn flugvallarins hvað varðar landnotkun og samskipti við samfélagið tengt flugvellinum. Uppbyggingaráætlun er gefin út 1-2 á ári og tekur til 7 ára framtíðar. Þróunaráætlun er til 25 ára og er gefin út á 3-5 ára fresti. Í uppfærðri þróunaráætlun er sýnt fram á ný þróunarsvæði auk breytinga sem orðið hafa á áformum á undanförunum 5 árum, frá útgáfu 2015.

Þróunaráætlun er kynnt hagsmunaaðilum og á samráðsfundum og leitað eftir athugasemdum. Heimasíður þróunaráætlunar & uppbyggingaráætlunar eru notaðar til að miðla upplýsingum og kalla eftir athugasemdum hagsmunaðila. Aðgerðum er forgangsraðað út frá mikilvægi þeirra byggt á þarfagreiningum og kröfum sem byggjast á væntingum notenda og alþjóðlegum reglugerðum og stöðlum. Nálgunin, að móta uppbyggingar- og þróunaráætlanir er kerfisbundin og er komin reynsla á þessa nálgun hjá Isavia. Uppbyggingaráætlun hefur verið gefin út tvisvar og þróunaráætlun sömuleiðis.

Áætlanagerðin er nálgun sem Isavia hefur valið til að tefla fram uppbyggingar- og þróunaráformum. Við mat á umhverfisáhrifum gengur flugvöllurinn lengra og sýnir fram á heildaráhrif uppbyggingaráætlunar sem er umfram lög um mat á umhverfisáhrifum.

Keflavíkurflugvöllur veldur óbeint auknum umhverfisáhrifum en aukin afkastageta flugvallarins mun skapa störf og efnahagslegan ábata fyrir nærbyggð flugvallarins. Að sama skapi þarf að gera ráð fyrir óæskilegum afleiðingum aukinnar umferðar, svo sem vegna hávaða, aukinnar bílaumferðar á þjóðvegum landsins, útblásturs koltvísýrings o.fl. Isavia vaktar hljóðvist og loftmengun við flugvöllinn og kynnir niðurstöður mælinga opinberlega. Umhverfisvænar lausnir við uppbyggingu flugstöðvar og flugvallar eru sömuleiðis hafðar í forgrunni hjá Isavia.

Erfitt er að ná utan um óbein áhrif vegna starfsemi Keflavíkurflugvallar en í  skýrslu  sem unnin var fyrir Isavia um þýðingu uppbyggingar flugvallarins til framtíðar koma bein efnahagsleg áhrif bersýnilega í ljós

Isavia hefur við vinnslu þróunaráætlunar leitast við að eiga í góðu sambandi við nærbyggðina. Samráðsfundir eru haldnir við mótun áætlana og áætlanir kynntar reglulega fyrir hagaðilum og fjölmiðlum. Isavia hefur sett á laggirnar samráðsvettvang í samráði við nærbyggðina undir merkjum Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna og á þannig í góðum samskiptum við sína helstu hagsmunaaðila úr nærbyggðinni.