Hoppa yfir valmynd

MARKMIÐ OG ÚRBÆTUR

Isavia hefur sett níu markmið í samfélagsábyrgð fyrir árið 2020. Markmiðin eru bæði sett til lengri tíma og styttri. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til eðlis fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, Heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum.

Markmið ársins 2020 og árangur 2019

Isavia hefur sett níu markmið í samfélagsábyrgð fyrir árið 2020. Markmiðin eru bæði sett til lengri tíma og styttri. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til eðlis fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, Heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Um leið var horft til úrbótatækifæra út frá GRI þáttunum, skuldbindingum félagsins við meginreglur UN Global Compact og hvatningaverkefni sem félagið er aðili að. Air Transport Action Group (ATAG), sem eru samtök innan flugiðnaðarins með það að markmiði að stuðla að sjálfbærum vexti, tengir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við hugmyndir að úrbótaverkefnum fyrir fyrirtæki í flugtengdri starfsemi. Auk þess sem ACI, alþjóðasamtök flugvalla hafa gefið út leiðbeiningar um sjálfbærnivegferð fyrir flugvelli. Félagið horfði einnig til áhersluþátta í þeirra vinnu.

Markmið ársins 2020 tengjast níu af Heimsmarkmiðunum sautján. Vinnan fór þannig fram að teymi fulltrúa starfsfólks frá öllum sviðum fyrirtækisins komu með tillögur inn í markmiðssetninguna út frá starfsemi sinna sviða. Tillögur teymisins voru lagðar fyrir forstjóra og framkvæmdastjórn til samþykktar og fyrir stjórn til kynningar. Hér fyrir neðan eru markmiðin og tengingar þeirra við Heimsmarkmiðin.

Markmið: Stöðugt unnið að fækkun slysa á vinnustöðum Isavia

  • Engin slys verða á starfsfólki Isavia á vinnustað.
  • Rýna og bæta skráningu og kortlagningu á hættulegum aðstæðum, næstum slysum og slysum á starfssvæðum Isavia.

Félagið setti sér markmið um að fækka slysum á starfsmönnum sem leiða til fjarveru árið 2018 og aftur árið 2019. Árið 2018 voru fjarveruslysin 11 þar af sex vegna vinnuaðstöðu. Árið 2019 voru 19 fjarveruslys á starfsfólki þar af sjö vegna vinnuaðstöðu. Markmiðið er nú útvíkkað í að stöðugt verði unnið að fækkun allra slysa á vinnustöðum Isavia og sett til lengri tíma. Undirmarkmið fyrir árið 2020 verða tvö, annars vegar að „engin slys verði á starfsfólki Isavia á vinnustað“ og hins vegar að „rýna og bæta skráningu og kortlagningu á hættulegum aðstæðum, næstum slysum og slysum á starfssvæðum Isavia“.

Markmiðið tengist heimsmarkmiði 3 óbeint og þá helst undirmarkmiði 3.6 sem gerir ráð fyrir að „helminga fjölda dauðsfalla og slysa vegna umferðarslysa“ fyrir árið 2020. Í skýrslu Air Transport Action Group (ATAG) var þetta heimsmarkmið tengt síþjálfun í öryggisvitund í samhengi við fluggeirann og notar Isavia það viðmið. Markmiðið tengist einnig heimsmarkmiði 8 og þá undirmarkmiði 8.8 sem segir að „réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandverkafólk, einkum konur í þeim hópi og þá sem eru í óöruggu starfi.“

Markmið: Jafna hlut kynjanna í stjórnendastörfum fyrir árið 2025

Gera eftirmannaáætlun (succession plan) og innleiðingaráætlun fyrir hana árið 2020. Tryggð verði jöfn kynjahlutföll í þeim.

Árið 2018 setti Isavia sér annars vegar markmið um sömu laun fyrir jafn verðmæt störf og hins vegar að fjölga kvenkynsstjórnendum í þriðja stjórnendaþrepi fyrirtækisins. Isavia lauk vottun á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 árið 2018 og náðist þá markmið um að útrýma óútskýrðum launamun kynjanna. Þá fjölgaði kvenkynsstjórnendum á þriðja stjórnendaþrepi fyrirtækisins úr 14 í 16%.  Fyrir árið 2019 var sett langtímamarkmiðið að „jafna hlutfall kynjanna í stjórnendastörfum fyrir árið 2030 og undirmarkmiðið að fjölga kvenkynsstjórnendum í þriðja stjórnendaþrepi í 20% fyrir árið 2021.  Árið 2019 urðu þrjár breytingar á stöðuheitum og einn karlmaður hætti hjá fyrirtækinu svo í lok ársins 2019 var hlutfall kvenna í þriðja stjórnendaþrepi orðið 23%. 

Í ár er langtímamarkmiðinu haldið óbreyttu, en þó sett til styttri tíma. Gert er ráð fyrir að ná því að jafna hlutfall kynjanna í stjórnendastörfum fyrir árið 2025. Undirmarkmið ársins er að „gera eftirmannaáætlun (succession plan) og innleiðingaráætlun fyrir hana árið 2020. Tryggð verði jöfn kynjahlutföll í þeim.“   

Breytingar urðu í framkvæmdastjórn móðurfélags á árinu 2019 og á fyrstu mánuðum 2020 sem gerðu það að verkum að nú er jafnt kynjahlutfall í öðru stjórnendaþrepi félagsins (framkvæmdastjórar). Aðgerðir Isavia tengjast heimsmarkmiði 5.1 þar sem gert er ráð fyrir að „útrýma allri mismunun gagnvart konum og stúlkum alls staðar“ og einnig markmiði 5.5 þar sem gert er ráð fyrir að „tryggja fulla og skilvirka þátttöku kvenna og jöfn tækifæri til forystu á öllum stigum ákvarðanatöku í pólitík, efnahagslegu- og opinberu lífi“. Unnið verður sérstaklega með undirmælikvarðann 5.5.2 sem mælir hlutfall kvenna í stjórnendastöðum. Markmiðið tengist einnig heimsmarkmiði 8.5 sem gerir ráð fyrir að „eigi síðar en árið 2030 verði full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir allar konur og karla, þar á meðal ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf.“

Isavia setti einnig markmið um að þjálfa starfsfólk sem er í beinni snertingu við farþega til að taka eftir mansali. Markmiðið náðist. Fræðsludeild félagsins lét búa til myndband í samráði við Lögreglustjórann á Suðurnesjum sem hefur vakið mikla athygli og hagaðilar félagsins hafa einnig getað nýtt sér.

Markmið: Gera heildstæða nálgun við áhættustýringu svo tryggt verði að hún nái yfir samfélagsábyrgð

Meta áhættu Isavia af loftslagsbreytingum á innviði Keflavíkurflugvallar.

Fyrir árið 2019 var sett markmið um að gera heildstæða nálgun við áhættustýringu svo tryggt verði að hún nái yfir samfélagsábyrgð fyrir árið 2024. Gert var ráð fyrir að ná utan um núverandi stöðu og gera innleiðingaráætlun á árinu 2019 sem náðist. Markmiðið stendur til lengri tíma, en undirmarkmið ársins 2020 er að meta áhættu Isavia af loftslagsbreytingum á innviði Keflavíkurflugvallar.

Markmiðið tengist heimsmarkmiði 8 og þá helst markmiði 8.4, þ.e. að „fram til ársins 2030 verði nýting auðlinda til neyslu og framleiðslu bætt jafnt og þétt og leitast við að draga úr hagvexti sem gengur á náttúruna í samræmi við tíu ára rammaáætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, með hátekjuríkin í fararbroddi.“ Undirmarkmiðið tengist einnig við markmið 11.B. sem gerir ráð fyrir að „útbúin verði heildræn áhættustýring vegna hvers kyns hamfara“ og 13.2. sem þrýstir á að „ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.“

Markmið: Efla skilvirkt eftirlit með innkaupum Isavia

  • Vísun í siðareglur og samfélagsábyrgð sé í öllum útboðs- og samningsgögnum samstæðunnar.
  • Fjöldi skráðra birga í upphafi árs 2020 sem hafa skrifað undir siðareglur birgja fari í 50% fyrir lok árs.

Félagið setti sér markmið til lengri tíma um að efla skilvirkt eftirlit með innkaupum Isavia fyrir árið 2019. Undirmarkmiðið var innleiðing á innkaupareglum og eftirfylgni með siðareglum birgja félagsins. Markmiðið náðist ekki og er enn í vinnslu. Markmiðið til lengri tíma verður óbreytt en undirmarkmiðunum er fjölgað í tvö, annars vegar er gert ráð fyrir að fjöldi skráðra birgja í upphafi árs 2020 sem hafa skrifað undir siðareglur birgja fari í 50% fyrir loka árs og hins vegar að það verði vísun í siðareglur og samfélagsábyrgð í öllum útboðs og samningsgögnum samstæðunnar.

Markmiðin tengjast heimsmarkmiði 12.7 sem gerir ráð fyrir að „stuðla að opinberum innkaupum sem eru sjálfbær, í samræmi við innlendar stefnur og forgangsröðun“.

Markmið: Hlutfall flokkaðs úrgangs verði 40% árið 2020, 55% árið 2025 og 70% árið 2030

Auka hlutfall endurvinnanlegs úrgangs um a.m.k. 5% á hvern farþega á milli ára.

Isavia setti sér það markmið árið 2018 að auka hlutfall flokkaðs úrgangs í starfseminni. Sett var markmið um að auka hlutfall endurvinnanlegs úrgangs um a.m.k. 5% á hvern farþega á milli ára sem náðist. Fyrir árið 2019 var einnig sett markmið til lengri tíma um flokkun úrgangs og gert ráð fyrir að hlutfall flokkaðs úrgangs yrði 35% árið 2020 og 70% árið 2030. Markmiðið náðist og er hlutfall flokkaðs úrgangs komið í 41% í lok árs 2019. Fyrir árið 2020 eru tölurnar í langtímamarkmiðinu uppfærðar lítillega og bætt við framvindutölu fyrir árið 2025, en undirmarkmiðið helst óbreytt.

Markmiðið fellur undir heimsmarkmið 12.2, sem tilgreinir að „eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð“ og 12.5 sem segir að „eigi síðar en árið 2030 hafi forvarnir, minni úrgangur, aukin endurvinnsla og endurnýting dregið verulega úr sóun.“ Það tengist einnig heimsmarkmiði 8.4 sem gerir ráð fyrir að „fram til ársins 2030 verði nýting auðlinda til neyslu og framleiðslu bætt jafnt og þétt og leitast við að draga úr hagvexti sem gengur á náttúruna í samræmi við tíu ára rammaáætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, með hátekjuríkin í fararbroddi.“

Markmið: Losun gróðurhúsalofttegunda hafi minnkað um 40% árið 2020, 50% árið 2025 og 60% árið 2030

Minnka notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi Isavia um 4% á hvern farþega á milli ára.

Félagið er með langtímamarkmið til ársins 2030 um minnkun kolefnislosunar og unnið er samkvæmt ítarlegri aðgerðaráætlun til að styðja við það markmið. Markmiðið er óbreytt frá fyrra árið fyrir utan að sett var framvindutala fyrir árið 2025. Undirmarkmiðið er að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi Isavia um 4% á hvern farþega á milli ára og hefur það verið óbreytt undanfarin ár.

Árið 2018 náðist framvinda gagnvart langtímamarkmiðinu þegar minnkun gróðurhúsalofttegunda í rekstri hafði numið tæpum 40% frá árinu 2015. Undirmarkmiðið náðist ekki og var 1,5% minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis á hvern farþega. Árið 2019 dró enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda og er minnkunin 46% frá árinu 2015. Það dró úr heildareldsneytisnotkun félagsins en hins vegar jókst notkunin á hvern farþega um 18%. Rekja má aukninguna til mikillar fækkunar farþega á árinu.

Loftslagsmarkmiðið tengist heimsmarkmiði 13.2 sem gerir ráð fyrir að „ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi“ og heimsmarkmiði 7.2 sem segir að „eigi síðar en árið 2030 hafi hlutfall endurnýjanlegrar orku af orkugjöfum heimsins aukist verulega.“

Markmið: Markviss og samræmd samskipti við ytri hagaðila fyrirtækisins

  • Ljúka stefnumótun með sveitarfélögum á Suðurnesjum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og setja í markvissa eftirfylgni.
  • Vinna markvisst með hagaðilum á Keflavíkurflugvelli að sameiginlegum málefnum í samfélagsábyrgð.

Markmiðið er að efla enn frekar samvinnu við ytri hagaðila félagsins með markvissum og samræmdum samskiptum. Undirmarkmiðin fyrir árið 2019 voru annars vegar að meta núverandi stöðu, móta tillögur og gera innleiðingaráætlun og hins vegar stefnumótun með sveitarfélögum og fyrirtækjum á Suðurnesjum byggða á heimsmarkmiðunum. Vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og er enn í gangi. Undirmarkmiðin eru umorðuð fyrir árið 2020. Annars vegar er gert ráð fyrir að ljúka stefnumótun með sveitarfélögum á Suðurnesjum í samræmi við heimsmarkmiðin og setja í markvissa eftirfylgni og hins vegar að vinna markvisst með hagaðilum á Keflavíkurflugvelli að sameiginlegum málefnum í samfélagsábyrgð.

Markmiðið tengist heimsmarkmiði 17.17 sem hvetur „til skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi.“ Einnig tengjast þau heimsmarkmiði „11.A sem gerir ráð fyrir að „stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.“ og 11.3 sem segir að „eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær og íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni“

Markmið: Efla vitund á mikilvægi samfélagsábyrgðar hjá fyrirtækinu

Fræða stjórnendur í málaflokknum til að auka skilning þeirra á samfélagslegum áskorunum og gefa leiðbeiningar um góðar starfsvenjur.

Félagið setti nýtt langtímamarkmið í ár sem gerir ráð fyrir að efla vitund á mikilvægi samfélagsábyrgðar hjá fyrirtækinu enn frekar. Undirmarkmið fyrir árið 2020 er að fræða stjórnendur um málaflokkinn til að auka skilning þeirra á samfélagslegum áskorunum og gefa leiðbeiningar um góðar starfsvenjur.

Markmiðið tengist heimsmarkmiði 8.9 sem segir að „eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.“ Einnig er tenging við 12.6 sem gerir ráð fyrir að „fyrirtæki, einkum stór og alþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og veita upplýsingar um sjálfbærni í skýrslum sem gefnar eru út á þeirra vegum“. Að lokum er tenging við heimsmarkmið 13.2 sem segir að „ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.“

Markmið: Vinna markvisst að góðu ferðalagi viðskiptavina á Keflavíkurflugvelli

Ljúka greiningu, mótun og þróun aðgerða tengdum ferðalagi viðskiptavina (customer journey).

Isavia setti nýtt langtímamarkmið sem tengist aukinni áherslu á góða þjónustu við viðskiptavini hjá félaginu. Undirmarkmið fyrir árið 2020 er að ljúka greiningu, mótun og þróun aðgerða tengdum ferðalagi viðskiptavina (customer journey).

Markmiðið tengist heimsmarkmiði 9.1 sem gerir ráð fyrir að „þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla“. Þá tengist það heimsmarkmiði 8.9 sem segir að „eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.“ Að lokum er tenging við heimsmarkmið 17.17 sem hvetur til „skilvirkra samstarfsverkefna hjá hinu opinbera, milli opinbera geirans og einkaaðila og á meðal borgaranna og styðja við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og útsjónarsemi höfð í fyrirrúmi“.