Skip to main content

SLYSAVARNARFÉLAGIÐ LANDSBJÖRG OG ALMANNAVARNIR

STYRKTARSJÓÐUR ISAVIA OG SLYSAVARNARFÉLAGSINS LANDSBJARGAR

Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja björgunarsveitir landsins með áherslu á viðbrögð við hópslysum við flugvelli og á fjölförnum ferðamannastöðum.

Styrktarsjóður Isavia og Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur verið starfræktur frá árinu 2012 og hefur fram til 2017 úthlutað nærri 40 milljónum króna til 25 björgunarsveita.

Fram til 2019 er það hlutverk sjóðsins að koma upp hópslysakerrum með öllum helsta búnaði sem grípa þarf til, t.d. við rútuslys. Kerrurnar eru afhentar björgunarsveitum sem eru við fjölfarna ferðamannastaði og eru í umhverfi þar sem langt er í aðstoð annarra viðbragðsaðila . Isavia gerði samantekt á hvar þörfin væri mest og verður kerrum þessum forgangsraðað samkvæmt þeirri samantekt. Samstarf Isavia og björgunarsveita hefur verið farsælt um árabil en sveitirnar eru hryggjarstykkið í almannavarnarviðbúnaði landsins, þ.m.t. á flugvöllum.

ALMANNAVARNIR OG HÓPSLYSAVIÐBÚNAÐUR

Isavia á aðild að stjórnstöð almannavarna og er í lykilhlutverki vegna viðbragðsáætlunar um leit og björgun á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Viðbragðsæfingar á flugvöllum eru mikilsverður þáttur í viðbúnaði Isavia og ekki síður almannavörnum á Íslandi og þróun þeirra. Að jafnaði eru haldnar fjórar flugslysaæfingar á ári og er þátttaka undantekningarlaust góð og taka yfir 1.000 manns þátt í þessum æfingum frá öllum viðbragðsaðilum. Frá því félagið hóf að halda reglubundnar æfingar á flugvöllum hafa viðbragðsáætlanir almannavarna vegna hópslysa þróast til samræmis við verklag sem notast er við á æfingum á flugvöllum. Æfingar félagsins hafa þannig orðið samráðsvettvangur viðbragðsaðila til þróunar á þekkingu og verklagi sem fest hefur verið í reglugerðir og lög um almannavarnir.