Flugfjarskipti

Fjarskipti við flugvélar á ferð yfir Norður-Atlantshaf er mikilvægur hluti af þjónustu Isavia við alþjóðaflugið. Þjónustusvæðið er aðallega flugstjórnarsvæði Reykjavíkur. Fyrirtækið tryggir örugg og skilvirk samskipti milli flugvéla, flugstjórnarmiðstöðva, flugrekenda, veðurstofa og annarra aðila sem koma að flugsamgöngum.

Fjarskiptastöðin í Gufunesi heldur uppi talfjarskiptum á stuttbylgju og á metrabylgju í náinni samvinnu við fjarskiptastöðina í Ballygirreen á Írlandi. Fjarskiptin fara fram á ensku og felast í móttöku og sendingu á skeytum er varða öryggi flugsins svo sem staðarákvarðanir, margvíslegar flughæða-, hraða- og flugleiðabreytingar, veðurskeyti, upplýsingar um lendingarskilyrði á flugvöllum og því um líkt. Skeytum frá flugvélum er dreift eftir atvikum til flugstjórnarmiðstöðva, veðurstofu og flugrekenda.

Mikið mæddi á flugfjarskiptamönnum þegar eldgosið í Eyjafjallajökli stóð yfir árið 2010. Á árinu voru að meðaltali afgreidd 1.329 skeyti á sólarhring en á annasömustu dögunum þegar flugumferð var sem mest um íslenska flugstjórnarsvæðið voru á fjórum dögum afgreidd 4.609 skeyti að meðaltali.

Í mjög stórum dráttum má skipta starfsemi fjarskiptastöðvarinnar í Gufunesi í tvö megin svið. Þau eru annars vegar talviðskipti við flugvélar (AMS) og hins vegar rekstur á AFTN/CIDIN skeytarofa (AFS). AFTN/CIDIN skeytarofinn er hluti af alþjóðlegu skeytadreifikerfi fyrir flugtengda starfsemi. Rofinn í Gufunesi er tengdur sambærilegum rofum í London, Noregi, Kanada og Grænlandi. Á Íslandi er hann tengdur flugstjórnarmiðstöðinni, Keflavíkurflugvelli og hinum ýmsu flugrekendum. Eftirlit með rekstri kerfisins er í höndum varðstjóra í Gufunesi, en tækniþjónusta flugleiðsögusviðs sér um tæknilega rekstrarþætti.

Sá hluti starfsemi fjarskiptastöðvarinnar sem snýr að talviðskiptum við flug er miklu stærri og krefst meiri mannafla. Í úthafsflugumferðarstjórn sjá fjarskiptastöðvarnar um talviðskipti við flugmenn nema þegar flugvélin er undir ratsjárflugumferðarstjórn. Fjarskiptamaðurinn tekur við skeytum frá flugumferðarstjóra og kemur þeim til skila til viðkomandi flugvélar og öfugt.

Algengustu þjónustur eru eftirfarandi:

  • Tilkynningar um stöðumið frá flugvélum
  • Óskir um breytingar á flughæðum eða flugleiðum frá flugmönnum
  • Afgreiðsla flugheimilda frá flugstjórnarmiðstöðinni
  • Veðurupplýsingar til og frá flugmönnum
  • Upplýsingar til aðgerðastjórnstöðva flugrekenda

Frá fjarskiptastöðinni í Gufunesi er veitt þjónusta allan sólarhringinn á HF og VHF GP tíðnum. Í stöðinni eru alls átta fjarskiptaborð til að sinna flugfjarskiptum.

HF þjónustan er veitt á þremur tíðnifjölskyldum:

Tíðnifjölskylda B
kHz
Tíðnifjölskylda C
kHz
Tíðnifjölskylda D
kHz
2899 2872 2971
5616 5649 4675
8864 8879 8891
13291 13306 11279
17946 17946 17946

Að öllu jöfnu vilja flugmenn frekar hafa viðskipti á VHF tíðni heldur en HF tíðni. Ástæðan er sú að hlustunarskilyrði eru miklu betri á VHF samböndum. Aftur á móti er langdrag VHF sambanda aðeins brot af  því sem HF sambönd bjóða. Langdrag VHF sambanda takmarkast við rúmlega sjónlínu. Því er mikilvægt að koma búnaðinum í sem mesta hæð til að auka langdrag. Algengt er að VHF sambönd dragi um 250 sjómílur. Landfræðilega hefur Ísland vissa sérstöðu. Með því að koma upp VHF búnaði á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi getur fjarskiptastöðin í Gufunesi boðið upp á samfellt VHF þjónustusvæði yfir Norður Atlantshaf. VHF GP þjónusta er veitt á þremur tíðnum: 126.55 MHz, 127.85 MHz og 129.75 MHz. Á Íslandi er VHF búnaður staðsettur á Gagnheiði, Háfelli, Háöxl, Þorbirni og á Þverfjalli. Í Færeyjum er búnaður á Fugley og í Grænlandi er búnaður í Dye One og Dye Four stöðvunum. HF sendabúnaður er staðsettur í Grindavík og á Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Móttakarar eru staðsettir í Þverholtum í Borgarfirði, Garðskagavita og á vesturströnd Noregs. Þá er einn sendir og móttakari í Söndreström á vesturströnd Grænlands. Um 500.000 skeyti eru afgreidd frá stöðinni á ári og af þeim um 65% á VHF tíðnum.

Annar þáttur í rekstri Gufunesstöðvarinnar eru gagnafjarskipti við flugvélar. Í samvinnu við bandaríska fjarskiptafyrirtækið ARINC er rekinn frá Gufunesi búnaður til gagnafjarskipta við flugvélar bæði á HF og VHF tíðnum. Í Grindavík eru HF sendar til þessarar notkunar og viðtæki í Þverholtum. Búnaður til gagnafjarskipta á VHF tíðnum er staðsettur á Háfelli og Þorbirni á Íslandi, á Spáafelli í Færeyjum og á þremur stöðum í Grænlandi, DYE One, DYE Four og TOP775. Með þessum staðsetningum næst belti með samfelldu þjónustusvæði yfir Norður-Atlantshaf á VHF tíðnum en utan þess er HF þjónusta. Gagnafjarskipti við flugvélar eru stöðugt að aukast, bæði þar sem flugfélög nálgast gögn frá eigin flugvélum og einnig eru samskipti milli flugvéla og flugstjórnarmiðstöðva að færast yfir á gagnaviðskipti í auknum mæli.

Ljóst er að umsvif í talviðskiptum við flugvélar fer minnkandi á komandi árum. Í dag er þessi þjónusta veitt frá sex stöðvum sem eru staðsettar á Írlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Portúgal og Noregi auk Íslands. Fullvíst er að þessum stöðvum mun fækka á næstu árum. Um 50% af þeirri umferð sem fer um íslenska flugstjórnarsvæðið í dag notar gagnaflutning til fjarskipta. Að vísu mun aukningin á þeirri umferð sem notar gagnaviðskipti að hluta til verða bætt með aukinni flugumferð sem spáð er á næstu árum. Innan Isavia hefur undirbúningur fyrir þetta breytta rekstrarfyrirkomulag staðið yfir.

Fjarskiptastöðvarnar í Gufunesi og í Ballygirreen á Írlandi hafa með sér samkomulag um samrekstur. Fjarskiptastöðin í Ballygirreen þjónar fjarskiptum í breska/írska flugstjórnarsvæðinu (Shanwick) sem er suður af íslenska svæðinu. Hugmyndin að baki samstarfinu er að í stað þess að skipta umferðinni milli stöðvanna á mörkum flugstjórnarsvæðanna er umferðinni skipt þannig að umferðartopparnir hjá hvorri stöð séu sem minnstir. Þannig er unnt að bæta þjónustuna og til framtíðar að lækka kostnað. Á sama tíma þjóna stöðvarnar einnig sem varastöðvar fyrir hvor aðra sem lækkar stofnkostnað og rekstrarkostnað þar sem ekki verður nauðsyn á að reisa nýja varastöð.

Í fjarskiptastöðinni starfa um 40 fjarskiptamenn sem vinna á fimmskiptum vöktum.

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum Isavia gullmerki PWC Tern Systems Fríhöfnin