Hoppa yfir valmynd
18.2.2016
Isavia sameinað undir einu merki

Isavia sameinað undir einu merki

Starfsemi Isavia hefur verið sameinuð undir einu merki. Undanfarin rúm fimm ár hefur starfsemi Isavia verið rekin undir tveimur vörumerkjum, annars vegar merki Keflavíkurflugvallar og Isavia hins vegar. Nú hefur farið fram ítarleg vinna við stefnumótun og framtíðarsýn og hefur félagið öðlast nýja og sameiginlega ásýnd. 

Sameining vörumerkja Isavia og Keflavíkurflugvallar er gerð að fyrirmynd norrænna systurfyrirtækja Isavia. Kostir hinnar nýju sameiginlegu ásýndar eru margir. Nú verður hægt að markaðssetja millilandaflugvellina sem félagið rekur, Keflavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll saman. Nú mun einnig sú mikla vinna sem unnin hefur verið í markaðssetningu á Keflavíkurflugvelli nýtast hinum völlunum og hægara verður um vik að halda áfram þeirri markaðssetningu sem fyrirtækið hefur staðið fyrir á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli sem millilandaflugvöllum.

Þá mun það að kynna alla starfsemina undir sama merki, og með tíð og tíma á sömu vefsíðu, auka vitneskju erlendra ferðamanna um innanlandsflugvallakerfið og hafa þannig jákvæð áhrif á farþegaaukningu um innanlandsflugvellina. Um 1,5 milljón gesta heimsækja núverandi vefsíðu Keflavíkurflugvallar árlega og þegar sameiginlegur vefur verður tilbúinn mun þessi fjöldi eiga auðveldara með að sjá hvaða kosti innanlandsflug hefur upp á að bjóða.

Tenging þriggja heimsálfa

Hið nýja merki hefur vísun til staðsetningar Íslands á milli Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, yfir norðurpólinn. Nú þegar tengir íslenska flugstjórnarsvæðið heimsálfurnar þrjár og til framtíðar hefur Isavia sett sér það markmið að fá tengingu við Asíu um Keflavíkurflugvöll. Merkið vísar einnig í flugvélarstél og kjöl víkingaskips og tengir þannig þá samgöngumáta sem hafa verið Íslendingum mikilvægastir í gegnum aldirnar. Með báðum þessum samgöngumátum höfum við ferðast frá landinu til Ameríku og Evrópu og þeir hafa verið okkar lífæð og grundvöllur undir efnahagslíf þjóðarinnar.

Tveggja ára vinna að baki

Sú vinna sem liggur að baki nýrri ásýnd Isavia hefur verið unnin að mestu leyti undanfarin tvö ár. Um 120 starfsmenn Isavia tóku þátt í vinnunni og höfðu áhrif á niðurstöðuna og lögðu þannig sitt af mörkum til verkefnisins. Haldin var samkeppni um kenniefni á milli auglýsingastofa í samtökum íslenskra auglýsingastofa og bárust fimm tillögur. Auglýsingastofan Hvíta húsið bar sigur úr býtum.

Alþjóðaflugvellirnir sem Isavia rekur verða hver með sitt nafn undir sama merkinu eins og sjá má hér að neðan: