Hoppa yfir valmynd
14.3.2018
Isavia styður við barna- og unglingastarf í Reykjanesbæ

Isavia styður við barna- og unglingastarf í Reykjanesbæ

Styrktarsjóður Isavia veitti í vikunni styrki til barna- og unglingastarfs Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB).  Styrkjunum er ætlað að styðja við allar greinar íþrótta og stuðla að auknum möguleikum barna- og unglinga til að stunda sínar íþróttir og fara í nauðsynlegar æfinga og keppnisferðir. Er styrkveitingin tengd við iðkendafjölda allra félaga og deilda innan ÍRB en þó er tryggð ákveðin lágmarksfjárhæð til þeirra sem eru með lágan iðkendafjölda og standa í uppbyggingarstarfi í sinni grein.

Styrkirnir voru afhentir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og voru það þeir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia, Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar og Þröstur Söring framkvæmdastjóri rekstarsviðs Keflavíkurflugvallar sem afhentu styrkina. Iðkendur frá þeim félögum sem fengu styrki við úthlutunina tóku við þeim og mættu margir þeirra í keppnisbúningum síns félags, og skapaði það skemmtilega umgjörð.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia: „Það er okkur hjá Isavia mjög mikilvægt að blómlegt íþrótta og tómstundastarf þrífist í Reykjanesbæ enda er Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnuveitandinn hér á Suðurnesjum. Mjög stór hópur íbúa vinnur á flugvellinum og með öflugu og fjölbreyttu starfi íþróttafélaga er tryggt að íbúar hafa aðgang að þjónustu þeirra fyrir börn sín og unglinga.  Við vitum að það er alltaf brýn þörf fyrir slíkan stuðning og við vonum að styrktarféð komi nærsamfélagi flugvallarins að góðum notum.“

Ingigerður Sæmundsdóttir formaður ÍRB sagðist afar ánægð með framtak Isavia. „Við hjá ÍRB þökkum Isavia kærlega fyrir styrkinn sem að kemur sér vel fyrir barna- og unglingastarf íþróttahreyfingarinnar í Reykjanesbæ. Það er ánægjulegt að koma hingað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með fulltrúa úr flestum félögum og deildum og veita styrknum viðtöku.“