Hoppa yfir valmynd
28.4.2017
Óhapp við lendingu í Keflavík – engin slys á fólki

Óhapp við lendingu í Keflavík – engin slys á fólki

Um kl. 17:20 í dag rann flugvél frá flugfélaginu Primera Air út af brautarenda brautar 19 í lendingu á Keflavíkurflugvelli. Engin slys urðu á fólki og litlar skemmdir á flugvélinni sjálfri. Ekki er ljóst hvað olli þessu óhappi en Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar nú atvikið. Vegna óhappsins voru engin flugtök eða lendingar á meðan verið var að fjarlægja alla farþega frá borði og unnið var að því að fjarlægja vélina sjálfa af brautarenda og að flugstöðinni. Vegna malbikunarframkvæmda er hin brautin á flugvellinum, braut 10/28 lokuð. Þær flugvélar sem áætluðu að lenda á Keflavíkurflugvelli strax eftir atvikið ákváðu að lenda annarsstaðar, tvær fóru til Skotlands og ein lenti í Reykjavík. Flugvélar og farþegar sem áttu að fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli eftir óhappið urðu fyrir töfum. Allir fjarþegar flugvélarinnar sem lenti í óphappinu voru flutti frá borði og í flugstöðina rúmlega klukkustund eftir atvikið og var þeim boðin áfallahjálp af Rauða krossi Íslands. 

Strax var undirbúin tímabundin opnun á braut 10/28 og hefur hún nú verið opnuð fyrir flugtök og hafa nú þegar nokkrar vélar farið í loftið. Þá er unnið að því að fjarlægja flugvélina af brautarenda flugbrautar 01/19 og opna flugbrautina aftur og stefnir í að því verði lokið í kvöld.

Við þessa röskun hafa orðið tafir á flugi og eins hefur flugum verið aflýst. Farþegar eru vinsamlega beðnir að hafa samband við flugfélag sitt varðandi nánari upplýsingar.

Allir farþegar sem voru í flugvél Primera Air sem lenti í óhappinu eiga að hafa fengið viðeigandi aðstoð og upplýsingar. Frekari upplýsingar verða veittar af flugfélaginu sjálfu.