Samið um vöktunarflug yfir eldstöðvar í jöklum

29.12.2017 15:51

Flugleiðsögusvið Isavia og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands/Jarðvísindastofnun hafa gert með sér samning um að flugvél Isavia, TF-FMS, verði notuð í vöktunarflug vegna eftirlits með eldstöðvum í jöklum.
 
Samningur þess efnis var undrritaður miðvikudaginn 27. desember 2017. Þar er meðal annars kveðið á um að flugvél Isavia verði tiltæk í fjórar eftirlitsflugferðir á ári yfir Mýrdals- og Vatnajökli.
 
Isavia notar flugvélina TF-FMS við flugprófanir og stillingar á tækjabúnaði við flugvelli á Íslandi. Auk þess hefur flugprófunarþjónusta Isavia verið keypt til annarra landa, meðal annars Grænlands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Flugvélin er mjög vel tækjum búin og hentar því einkar vel til eftirlits með eldstöðvum. Um árabil hefur Isavia sinnt eftirliti með eldstöðvum í samstarfi við Raunvísindastofnun en nú í fyrsta sinn hefur sú samvinna verið færð í fastar skorður með samningi.
 
Samninginn undirrituðu þau Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, varaformaður stjórnar Jarðvísindastofnunar Háskólans, fyrir hönd stofnunarinnar.
 
Frá vinstri: Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, varaformaður stjórnar Jarðvísindastofnunar HÍ, Snæbjörn Guðbjörnsson, flugstjóri og aðflugshönnuður, og Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia.

 

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum Isavia gullmerki PWC Tern Systems Fríhöfnin