Hoppa yfir valmynd
5.7.2017
Stuttur biðtími þrátt fyrir mikla fjölgun farþega

Stuttur biðtími þrátt fyrir mikla fjölgun farþega

Sá árangur náðist í júní á Keflavíkurflugvelli að 89% farþega biðu í röð við öryggisleit í fimm mínútur eða skemur og nánast allir, eða 98% biðu skemur en 10 mínútur í röð. Upplýsingarnar eru fengnar úr sérstöku kerfi sem fylgist með biðtíma farþega á flugvellinum. Isavia hefur unnið hörðum höndum að því að halda biðröðum í öryggisleit í lágmarki og sýna þessar tölur glögglega að það hefur tekist vel í júnímánuði. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að um flugvöllinn hafi farið um 280.000 brottfararfarþegar í mánuðinum, og er hann þar með þriðji stærsti mánuðurinn á Keflavíkurflugvelli frá upphafi, á eftir júlí og ágúst 2016. 
 
Þröstur Söring framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar: „Þessi frábæri árangur, í þriðja stærsta mánuði í sögu flugvallarins, hefur náðst með því að taka í notkun fullkomnari tækjabúnað, endurskipuleggja vinnubrögð og fjölga starfsfólki. Það er sérstaklega ánægjulegt hvað vel hefur gengið að ráða inn nýtt starfsfólk og hversu hratt það hefur náð að tileinka sér fagleg og góð vinnubrögð.“