Hoppa yfir valmynd
8.9.2017
Þrettán verkefni fengu úthlutað úr samfélagssjóði Isavia

Þrettán verkefni fengu úthlutað úr samfélagssjóði Isavia

Isavia hefur nú úthlutað úr samfélagssjóði sínum og hlutu þrettán verkefni styrk að þessu sinni. Veitt er úr sjóðnum tvisvar sinnum á ári. Við val á styrkþegum er áhersla lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál og barst sjóðnum fjöldinn allur af umsóknum. Voru styrkirnir afhendir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á dögunum.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:

„Okkur hjá Isavia finnst afar mikilvægt að láta gott af okkur leiða og eru úthlutanir úr samfélagssjóði okkar stór þáttur í því. Það er einnig ánægjulegt að geta styrkt hin ýmsu verkefni á Suðurnesjunum í nánd við Keflavíkurflugvöll en þar eins og annarsstaðar á landinu er af fjölmörgum frambærilegum verkefnum er að taka. Við hlökkum til að fylgjast með gangi mála og sjá hvernig styrkveitingarnar úr sjóðnum munu hjálpa þessum þrettán verðugu verkefnum sem hlutu styrkinn að þessu sinni.“

Verkefnin sem fengu styrk eru:

Vinnuskóli Reykjanesbæjar og FS fengu styrk til að kynna verknám fyrir 9. bekk í gegnum vinnuskólann.

Steinbogi kvikmyndagerð fékk styrk við gerð heimildarmyndarinnar „Guðni á trukknum“ sem fjallar um Guðna Ingimundarson, heiðursborgara Garðs.

Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs (GFF) fékk styrk fyrir samstarfsverkefni við 18 grunn- og framhaldsskóla um uppgræðslu í Landnámi Ingólfs.

Stuðningsfélagið Kraftur fékk styrk vegna átaksins „Lífið er núna“ sem aðstoðar krabbameinssjúka á aldrinum 18-40 ára.

ABCD fékk styrk til að þýða og staðfæra alþjóðlegt námsefni í fjármálalæsi fyrir 6-14 ára.

Plastlaus september fékk styrk við árveknis átak sitt sem er ætlað að vekja almenning til umhugsunar um plastnotkun.

Ungir umhverfissinnar fengu styrk við kynningar í menntaskólum um umhverfismál.

Ylhýra hlaut styrk við gerð á tölvu- og smáforriti í snjallsíma fyrir íslenskukennslu.

Söngvaskáld á Suðurnesjum fengu styrk við framkvæmd á tónleikaröð sinni.

Vinaliðar fengu styrk til verkefnis þar sem nemendur gerast vinaliðar og taka þátt í verkefnum sem snúa að einelti.

Borgarhólsskóli fékk styrk við kaup á tækni-lego fyrir börn og unglinga.

Töfrahurðin, íslensk tónlistarútgáfa fékk styrk við gerð jazzútgáfu af sögu Péturs og úlfsins og munu bjóða 600 grunnskólabörnum á prufu í Hörpu í nóvember 2017.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum fékk styrk fyrir sérverkefni sem ætlað er að styrkja samstöðu og uppbyggingu.

 

Um styrktarsjóði Isavia:

Isavia styrkir góð málefni á hverju ári eftir afmarkaðri stefnu sem er í samræmi við samþykkt stjórnar félagsins. Styrkirnir skiptast í þessa þrjá flokka: Styrktarsjóður Isavia hjá Landsbjörgu veitir styrki til björgunarsveita um allt land. Sveitirnar eru styrktar til kaupa á hópslysabúnaði og er sérstök áhersla lögð á björgunarsveitir nálægt flugvöllum og fjölförnum ferðamannastöðum. Styrktarsjóðir Isavia hjá HÍ og HR veita styrki til nemenda á meistara- og doktorsstigi sem vinna að lokaverkefnum tengdum flugi eða ferðaþjónustu. Háskólarnir annast úthlutun úr sjóðunum. Í gegnum samfélagssjóð leggur Isavia sitt af mörkum til þess að metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins fái að dafna. Til að skerpa á málaflokknum hefur félagið lagt áherslu á: Forvarnarverkefni fyrir ungmenni, líknarmál, góðgerðarmál, umhverfismál og verkefni sem tengjast flugi.