
Starfsmenn Isavia eða skilgreindir undirverktakar sjá um veðurþjónustu sem felst ýmist í gerð og dreifingu reglulegra veðurskeyta eða veðurupplýsingum samkvæmt beiðni. Á nokkrum stöðum er hægt að hringja í sjálfvirkar veðurstöðvar á flugvöllunum eða í nágrenni þeirra. Í Keflavík og Reykjavík eru útbúin sérstök skeyti sem dreift er í flugvallarútvarpi staðarins ATIS.
Flugvellir á vegum Isavia eru aðeins misjafnlega búnir veðurtækjum og -viðmótum, og því getur verið munur á því hvað birtist undir sérhverjum flugvelli.
UPPLÝSINGAR UM VEÐUR Á FLUGVÖLLUM OG Í NÁGRENNI ÞEIRRA
Fyrir sérhvern flugvöll er birt allt í senn; rauntímaupplýsingar, veðurlýsingar, veðurspár og viðvaranir.
- Rauntímaupplýsingar eru bein birting eða lestur frá mælitækjum flugvallanna ásamt veðri og færð frá Vegagerðinni
- Veðurlýsingar fyrir flugvellina eru útbúnar á skeytaformi (METAR) og einnig lesnar inn í flugvallarútvarp ATIS
- Veðurspár VÍ birtast á skeytaformi (TAF), í spáriti, eða hitariti.Viðvaranir fyrir flug eru á skeytaformi (SIGMET)
FYRIRVARAR Á VEÐURUPPLÝSINGUM
Isavia undirstrikar eftirfarandi vegna opinberrar birtingar á rauntímaupplýsingum frá mælitækjum flugvalla:
Þessi gögn eru eingöngu ætluð sem ítarefni við þær veðurupplýsingar sem gefnar eru út frá tilgreindum flugvöllum, eins og METAR og SPECI, en koma alls ekki í staðinn fyrir þær.
Athuga ber að öll gögnin eru óyfirfarin rauntímagögn og ábyrgist Isavia ekki að þau séu ávallt aðgengileg og uppfærð. Mæligildi eiga að uppfærast sjálfvirkt á tveggja mínútna fresti.
Veðurathuganir úr veðurstöðvum eiga að uppfærast sjálfvirkt á hálftíma fresti. Aukalegar sjálfvirkar veðurathuganir birtast við skyndileg veðrabrigði sem fara yfir ákveðin mörk.