Hoppa yfir valmynd
1.7.2024
Fjölbreyttar leiðir til og frá Keflavíkurflugvelli

Fjölbreyttar leiðir til og frá Keflavíkurflugvelli

Ferðalangar sem fljúga um Keflavíkurflugvöll bjóðast fjölbreyttir ferðakostir í samgöngum til og frá vellinum. Hér verður farið yfir helstu leiðir til þess að komast til og frá flugvellinum og á höfuðborgarsvæðið. Ættu því allir ferðalangar að geta fundið ferðamáta sem hentar þeim.

Rútuferðir

Tvö rútufyrirtæki sinna skipulögðum ferðum milli Reykjavíkur og flugvallarins, Flybus og Airport Direct. Rúturnar ganga með reglulegu millibili í tengslum við flugáætlun, allan sólarhringinn, til og frá KEF og á höfuðborgarsvæðið. Mælt er með því að bóka flugmiða í rúturnar fyrir fram.

Flugrútan – Flybus

Flugrútan keyrir frá BSÍ til Keflavíkurflugvallar samkvæmt tímatöflu og frá Keflavíkurflugvelli 40 mínútum eftir lendingu hvers flugs og mun örar á álagstíma. Flugrútan stoppar á leið sinni við Aktu taktu í Garðabæ og við Fjörukrána í Hafnarfirði auk þess að sækja og skutla á fjölda gististaða og biðstöðva víðs vegar í Reykjavík.

Farþegar geta leitað upplýsinga hjá upplýsingaborði Flugrútunnar sem er staðsett í komusal eða á flybus.is. Hægt er að kaupa miða í Flugrútuna á vefnum, á upplýsingaborði Flugrútunnar eða í sjálfsölum á Keflavíkurflugvelli. Sjálfsalarnir eru staðsettir í komusal, eftir að komið er út um tollahliðið. Fyrir brottför frá Íslandi er hægt að innrita farangur á BSÍ í gegnum þjónustu BagDrop.

Airport Direct

Airport Direct ekur á milli Keflavíkurfluvallar og umferðarmiðstöðvar Airport Direct, Reykjavik Terminal sem er staðsett í Skógarhlíð 10, 105 Reykjavik. Rútan stoppar einu sinni á leiðinni, í Hamraborg, Kópavogi. Möguleiki er á að bæta við tengingu við hótel og strætóstoppistöðvar þar sem farþegar eru sóttir eða skutlað á það hótel sem þeir óska eftir.

Hægt er að kaupa miða í miðasölu Airport Direct, sem staðsett er í komusal beint af augum þegar komið er út í gegnum tollhlið.

Leigubílar

Á Keflavíkurflugvelli eru leigubílar til taks allan sólarhringinn og standa að jafnaði fyrir framan flugvöllinn í röðum. Geta ferðalangar því fundið sér far á áfangastað sinn nokkuð áreynslulaust. Þau sem vilja bóka leigubíl á Keflavíkurflugvöll geta gert það á vefsíðum leigubílafyrirtækja, símleiðis eða með því að hafa samband við leigubílstjóra.

  • Verð: Breytilegt eftir áfangastað. Algengt verð fyrir akstur milli höfuðborgarsvæðisins og KEF er um. 20.000 krónur í venjulegum bíl.
  • Ferðatími: Breytilegt og háð umferð. Áætlað u.þ.b. 30-90 mínútur.

Einkabíll

Þeir gestir flugvallarins sem kjósa að keyra sjálf á flugvöllinn á einkabíl bjóðast nokkrar tengundir bílastæða að nýta og henta ólíkum hópum flugfarþega. Bílastæðin geta þó fyllst á álagstímum og er því gestum flugvallarins bent á að bóka stæðin tímanlega.

P1 - Skammtímastæði

Þar er hægt að velja um að leggja í betri stæði sem merkt eru P1 og eru staðsett beint fyrir framan brottfararsalinn. Þessi stæði henta vel þeim sem eru að sækja farþega í flug og dvelja í skamman tíma á flugvellinum.

P3 – Almenn stæði

Almenn stæði eru merkt P3 og eru langtímastæði. Hagstæðasta verðið er á þessum bílastæðum og henta því vel þeim sem eru að fara í lengri ferðir og vilja skilja bílinn eftir í lengri tíma.

Úrvalsstæði

Úrvalsstæði eru svo þau stæði sem bjóða upp á hvað mestu þægindin. Þá er lagt í stæði á sérmerktu stæði alveg upp við brottfararhliðið og lyklum skilað í lyklabox í brottfararsal. Starfsfólk leggur bílnum í öruggt stæði og við heimkomu er honum aftur komið fyrir við flugvöllinn.

Strætó

Hægt er að taka strætó til Keflavíkurflugvallar með Leið 55 sem ekur daglega á milli höfuðborgarsvæðisins og KEF. Strætómiða er ekki hægt að bóka fyrir fram, heldur mæta viðskiptavinir á biðstöðina á þeim tíma sem vagninn á að koma og greiða um borð í vagninum. Strætó keyrir ekki í samræmi við flugáætlun heldur byrjar að keyra klukkan hálf sjö á morgnanna, og gengur með reglulegu millibili þar til um 11 á kvöldin, og hentar því betur farþegum sem eiga flug yfir daginn.

Farþegar sem taka Strætó frá höfuðborgarsvæðinu á Keflavíkurflugvöll er hleypt út beint fyrir framan inngang flugstöðvarinnar. Komufarþegar sem ætla að fara frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins þurfa að nota biðstöð Strætó við Kjóavelli, en hún er staðsett brottfaramegin í um 150 metra frá flugstöðinni.

  • Verð: 2280 fyrir fullorðna
  • Tímalengd: 1 klst og 20 mín frá KEF að BSÍ
  • Frekari upplýsingar: Heimasíða Strætó.

Bílaleigur

Fyrir gesti flugvallarins sem óska eftir að leigja bíl við komu sína til landsins, býður KEF upp á beinan aðgang að þjónustu fjögurra bílaleiga. Þessar bílaleigur, Avis, Bílaleiga Akureyrar, Budget og Hertz, eru allar með aðstöðu innan flugstöðvarinnar, nánar tiltekið í komusal. Til að auðvelda ferðaáætlun og tryggja að ökutæki sé tiltækt við komu, er ráðlagt að viðskiptavinir bóki bílaleigubíl fyrirfram. Með því að nýta sér þessa þjónustu geta ferðamenn strax við komu tekið við lyklum og hafið ferðalag sitt um Ísland. Bílaleigubílar eru sóttir við Kjóavelli, sem eru um 5 mínútna spöl frá komusalnum. Nánari upplýsingar um staðsetningu og aðgengi má finna á heimasíðum hvers bílaleigufyrirtækis.

  • Verð: Breytilegt og fer eftir tegund bíla og lengd leigu
  • Frekari upplýsingar: Heimasíða KEF

Vistvænar samgöngur

Að ganga og hjóla er ekki aðeins gott fyrir umhverfið og fjárhaginn heldur líka frábær hreyfing. Að ganga á flugvöllinn getur þó tekið tíma og þolinmæði þar sem flugvöllurinn er staðsettur í töluverðri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og enn í nokkurri fjarlægð frá nærliggjandi sveitarfélögum, en til staðar er göngu- og hjólastígur sem tengir flugvöllinn við Reykjanesbæ. Þau allra hörðustu, og farangursléttustu, gætu séð sér valkost að hjóla upp á flugvöll og hafa þessir aðilar mökuleikann að leggja hjólinu sínu í tilskilið hjólaskýli.

Vaxandi áhugi og notkun á vistvænum samgöngumátum hefur ýtt undir uppbyggingu á aðkomusvæðinu við flugvöllinn og er nú horft til þess að bæta verulega aðstöðu fyrir hjólreiðar. Þessi aðstaða verður staðsett við komusvæði á sammtímastæðum á P2. Aðstaðan mun gagnast ferðafólki, en mun þó líklegast nýtast því starfsfólki sem býr nálægt flugvellinum hvað mest.