Hoppa yfir valmynd
8.2.2024
Heitavatnslaust í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli

Heitavatnslaust í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli

Heitavatnslaust er á Keflavíkurflugvelli vegna hrauns sem flætt hefur yfir heitavatnsæð eftir að eldgos hófst á Reykjanesi að morgni fimmtudagsins 8. febrúar 2024. Hefur slíkt takmörkuð áhrif á starfsemi á Keflavíkurflugvelli en vel er fylgst með þróun mála og gripið til nauðsynlegra aðgerða ef þar, m.a. til að bregðast við hugsanlegri kólnun í flugstöðinni af völdum heitavatnsleysis.

Ekki er varaleið til að kynda heitt vatn inn á hitaveitukerfi á flugvellinum. Starfsfólk Isavia og rekstraraðila í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli hefur verið beðið um að halda varma inni í flugstöðinni og byggingum á svæðinu. Gæta þess að loka gluggum eins og kostur og passa að hurðir standi ekki opnar.

Gripið hefur verið til eftirfarandi aðgerða vegna heitavatnsleysis:

  • Slökkt hefur verið á allri snjóbræðslu í og við flugstöðina, gerðar hafa verið ráðstafanir til að auka og tryggja hálkuvarnir í gönguleiðum.
  • Búið er að slökkva á loftræstingu í byggingunni til að köldu lofti sé ekki blásið inn í bygginguna.
  • Verið er að koma upp, á völdum stöðum, rafmagns hitablásurum til að halda lágmarkshita á farþegasvæðum og nánasta umhverfi þeirra.

Flugfélög og flugþjónustufyrirtæki á vellinum eru upplýst um stöðu mála til að þau geti gripið til viðbragðsaðgerða í sinni þjónustu og á sínum rekstrarsvæðum á flugvellinum ef og þegar þörf verður á.