Hoppa yfir valmynd
2.7.2024
Vel í stakk búin fyrir eitt stærsta sumarið á KEF

Vel í stakk búin fyrir eitt stærsta sumarið á KEF

Það er nóg um að vera á Keflavíkurflugvelli (KEF) í sumar og hafa framkvæmdir síðustu misseri sem miða að því að stækka flugstöðina og bæta þjónustu gesta gengið vel. Nýr töskusalur opnaði á síðasta ári og síðar í sumar mun önnur hæð í austurálmunni opna og stórbæta flæði í flugstöðinni. Þá stækkaði komuverslun Fríhafnarinnar töluvert í vor.

„Það er markmið okkar allra sem störfum á flugvellinum að auka þjónustu við gesti og bæta upplifun þeirra. Til þess að það gangi upp þarf samvinnu allra sem starfa í KEF, hvort sem það er starfsfólk okkar, flugafgreiðsluaðila, rekstraraðila veitingastaða og verslana, flugfélög, rútufyrirtæki eða bílaleigur,“ segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar á Keflavíkurflugvelli.

Opnanir og uppbygging 

KEF er í stöðugri þróun sem miðar að því að bæta aðstöðu á flugvellinum til að tryggja gestum betri þjónustu og upplifun. Nýir veitingastaðir hafa opnað á flugvellinum fyrir sumartímabilið og enn fleiri veitingastaðir og nýjar verslanir eru væntanlegar í sumar. Má þar nefna Loksins Café & Bar og Bakað sem opnuðu á fyrri hluta ársins. Fataverslunin Húrra Reykjavík opnaði nýverið ásamt endurbættri verslun Blue Lagoon Skincare. Þá opna nýjar og glæsilegar verslanir 66°Norður og Rammagerðarinnar á næstunni ásamt þremur nýjum veitingastöðum: La Trattoria, Yuzu og Zócalo.

Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar

Það er að mörgu að huga þegar kemur að daglegum rekstri á alþjóðaflugvelli sem einnig er í miðju framkvæmdarferli. „Við tölum oft um „flugvallarsamfélagið“ í þessu samhengi en það þarf samhæft átak til þess að starfsemi á alþjóðaflugvelli af þessari stærðargráðu gangi upp á meðan miklar framkvæmdir eru að eiga sér stað,“ segir Anna Björk. „Að tryggja ánægju gesta sem fara um flugstöðina er alltaf áskorun og sérstaklega í miðjum framkvæmdum en flugvallarsamfélagið hefur unnið mikið þrekvirki á síðustu mánuðum.“

Ný austurálma og akbraut

austurálma, viðbygging við flugstöðina, var tekin í notkun á síðasta ári með nýjum og rúmbetri töskusal, ásamt nýjum komuverslunum Elko og Fríhafnarinnar. Á síðari hluta ársins verður austurálman tekin að fullu í notkun þar sem nýir landgangar bætast við auk rúmbetra svæðis fyrir verslanir og veitingastaði. Austurálman felur í sér nærri 30% stækkun flugstöðvarinnar og er hún lykilþáttur í framtíðarþróun flugvallarins.

Þá var nýlega tekin í notkun ný akbraut, Mike, sú fyrsta sem byggð hefur verið síðan flugbrautarkerfi KEF var byggt upphaflega. Henni er ætlað að bæta flæði flugvéla um akbrautarkerfið með því að stytta akstursleið til og frá flugbrautum.

Mike akbraut

„Við sjáum strax ávinning af skilvirkara flæði flugvéla. Með stóraukinni og bættri samvinnu við flugfélögin og flugafgreiðsluaðila á vellinum þar að auki, hefur okkur tekist að stórbæta stundvísi flugvallarins milli ára, þvert ofan í meiri umferð og það sem stefnir í að verða eitt annasamasta sumar Keflavíkurflugvallar. Brottfararstundvísi, sem oft er nefnd heilbrigðismerki flugvalla, hefur síðan sumarvertíðin hófst í maí verið rúmlega 10 prósentustigum hærra en á sama tíma í fyrra.“

Öflugt sumarstarfsfólk tekið til starfa

Stór hópur sumarstarfsmanna tekur til starfa ár hvert og gengu ráðningar fyrir sumarið í ár afskaplega vel. Tæplega 1.400 umsóknir bárust og voru 370 einstaklingar ráðnir til Isavia.

Stór hluti sumarstarfsmanna starfar í beinni þjónustu við gesti flugvallarins

Meginhluti sumarstarfsfólks starfar í framlínu félagsins í beinni þjónustu við flugvallargesti, svo sem í öryggisleit og eftirliti, farþegaþjónustu og farþegaakstri innan vallar. „Á flugvellinum starfar ekki aðeins fjölbreyttur hópur fagfólks, heldur einnig samhent samfélag margra fyrirtækja sem vinnur að sameiginlegu markmiði: að veita gestum okkar framúrskarandi þjónustu og góða upplifun. Þegar við berum okkur saman við aðra flugvelli sjáum við að biðtími í til dæmis öryggisleit og landamæraeftirliti er með því minnsta sem þekkist og skilar aukinni ánægju gesta. Það er þessi samvinna og sameiginlega ástríða sem gerir KEF að sérstökum áfangastað og skapar upplifun sem við öll getum verið stolt af,“ segir Anna Björk að lokum.