Hoppa yfir valmynd

Svikapóstar

Svik í gegnum tölvupóst og smáskilaboð

Undanfarið hefur færst í aukana að reynt sé að blekkja starfsfólk með skilaboðum í tölvupósti og smáskilaboðum sem líta út eins og þau séu frá lögmætum fyrirtækjum. Skilaboðin eru að aukast og er markmið þeirra að fá starfsfólk til að smella á hlekk eða opna viðhengi í því skyni að reyna að nálgast upplýsingar eða fjármuni, þessi aðferð nefnist vefveiðar (e.phising).

Vefveiðar virka þannig að svikarar senda tölvupóst eða smáskilaboð til að komast yfir upplýsingar, notandanafn, lykilorð, kortanúmer, bankaupplýsingar o.s.frv. Skilaboðin geta innihaldið hlekk eða skjal þar sem reynt er að fá starfsfólk til að slá inn notandanafn og lykilorð.

Skilaboð:

  • geta innihaldið viðhengi sem eru sýkt t.d. „Ransomware“. Ef tölvan smitast af viðhengi þá eru gögn sem tengjast tölvunni dulkóðuð og beðið er um lausnargjald.
  • geta litið út fyrir að vera frá yfirmanni, samstarfsaðila eða aðila sem þið eru vön að vera í samskiptum við.
  • eru í flestum tilfellum tölvuþrjótar sem búnir eru að breyta uppruna póstsins og þykjast vera einhver annar.
  • uppruni þeirra getur verið réttur en þá gæti verið búið að brjótast inn í pósthólfið
  • í símann geta innihaldið hlekki, viðhengi og skjöl sem eru sýkt.

 

Hvað get ég gert til að koma í veg fyrir svik?

  • sýndu tortryggni gagnvart tölvupóstum og smáskilaboðum þar sem beðið er um viðkvæmar upplýsingar.
  • ef þú ert í vafa með tölvupóst, hafðu samband við sendandann til að staðfesta uppruna t.d. í gegnum síma.
  • hlekkir og viðhengi sem þú kannast ekki við skalt þú ekki opna, ef þig vantar aðstoð hafðu þá samband við Kerfisþjónustu.
  • með því að láta músina hvíla yfir hlekk er hægt að kanna hvort vefslóðin vísi á þann stað sem búist er við.
  • vertu viss um að vefsíðan sé í lagi áður en þú slærð inn viðkvæmar upplýsingar s.s. notendanafn og lykilorð.

Ef þú hefur smellt á hlekk og sett inn viðkvæmar upplýsingar s.s. notandanafn og lykilorð eða aðrar upplýsingar á síðu eða í skjali sem þú kannast ekki við, vinsamlegast hafðu samband við kerfisþjónustu.

Allar beiðnir sem eru mótteknar eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál.