Hoppa yfir valmynd

UM ÍSLENSKA FLUGSTJÓRNARSVÆÐIÐ

Isavia hefur starfsleyfi frá Samgöngustofu til þess að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands, og á svæði sem er nefnt íslenska flugstjórnarsvæðið.

ÚTHAFSSVÆÐIÐ

Alþjóða flugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir Norður-Atlantshafi. Þessi lönd eru Bretland, Ísland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal. 

Íslenska flugstjórnarsvæðið ber alþjóðlegu skammstöfunina BIRD og nær yfir svæði frá 61°N að norðurpólnum, frá 76°W að 30°E. Neðri mörk stjórnaða svæðisins eru breytileg, allt frá jörðu og að 20.000 fetum yfir sjávarmáli þar sem þau eru hæst, en efri hæðarmörk eru engin. Aðliggjandi svæði eru: skosku svæðin Shanwick (EGGX) og Prestwick (EGPX), kanadísku svæðin Gander (CZQX) og Edmonton (CZEG), rússneska svæðið Murmansk (ULMM) og norsku svæðin Polaris ACC Bodö (ENOB) og Polaris ACC Stavanger (ENOR).

Helstu flugvellir í svæðinu eru í Keflavík, Reykjavík, Akureyri, Egilstaðir, Vågar í Færeyjum, Söndreström, Nuuk og Thule á Grænlandi.

Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjá  Isavia ANS. Svæðið hefur nokkra sérstöðu meðal úthafssvæða vegna sveigjanleika, bæði hvað varðar flugleiðir og flughæðir.

Til stjórnunar flugumferðar í svæðinu eru notuð kögunargögn frá ratsjárstöðvum, ADS-B og MLAT sem staðsettar eru á Íslandi, á Grænlandi og í Færeyjum auk þess sem notuð er geimkögun með ADS-B. Kögunardrægi nær yfir íslenska svæðið sunnan við 70N en í mars 2022 mun það ná upp á Norður Pól og þar með yfir allt íslenska svæðið. Notkun kögunar auðveldar stjórnun flugumferðar í svæðinu og gerir mögulegt að veita betri og sveigjanlegri þjónustu sem gefur meiri möguleika á hentugustu flugleiðum og hæðum fyrir flugvélar sem stuðlar að minni eldsneytiseyðslu og CO2 útblæstri.

Íslenska flugstjórnarsvæðið skiptist í fjögur undirsvæði til að dreifa álagi við stjórnun flugumferðarinnar. Þessi svæði nefnast norður, vestur, suður og austur. Ratsjá er notuð til að stjórna flugumferð í suður- og austursvæði, en í norður- og vestursvæði er huglæg flugumferðarstjórn.

AÐFLUGSSVÆÐIÐ

Aðflugsþjónusta fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll fer fram í flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur. Aðflugssvæðið nær upp í 24.500 fet, eins og innanlandssvæðið og út í u.þ.b. 40° NM frá Keflavíkurflugvelli.