Hoppa yfir valmynd

UM ÍSLENSKA FLUGSTJÓRNARSVÆÐIÐ

Flugmálastjórn Íslands veitti Isavia starfsleyfi til þess að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands, og á svæði sem er nefnt íslenska flugstjórnarsvæðið.

ÚTHAFSSVÆÐIÐ

Alþjóða flugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir Norður-Atlantshafi. Þessi lönd eru Bretland, Ísland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal. Flugmálastjórn Íslands veitti Isavia starfsleyfi til þess að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands, og á svæði sem er nefnt íslenska flugstjórnarsvæðið.

Íslenska flugstjórnarsvæðið ber alþjóðlegu skammstöfunina BIRD og nær yfir svæði frá 61°N að norðurpólnum, frá 76°W að 30°E. Neðri mörk stjórnaða svæðisins eru breytileg, allt frá jörðu og að 20.000 fetum yfir sjávarmáli þar sem þau eru hæst, en efri hæðarmörk eru engin. Aðliggjandi svæði eru: Skoska svæðið Shanwick (EGGX) og Prestwick (EGPX), kanadísku svæðin Gander (CZQX) og Edmonton (CZEG), rússneska svæðið Murmansk (ULMM) og norsku svæðin Bodö (ENOB) og Norway (ENOR).

Helstu flugvellir í svæðinu eru í Keflavík, Reykjavík, Akureyri, Vågar í Færeyjum, Söndreström og Thule á Grænlandi.

Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið sem er í umsjá Isavia. Svæðið hefur nokkra sérstöðu meðal úthafssvæða vegna sveigjanleika, bæði hvað varðar flugleiðir og flughæðir.

Til stjórnunar flugumferðar í svæðinu eru notuð gögn frá sjö ratsjárstöðvum sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli (KF-M), Miðnesheiði (H-1), Gunnólfsvíkurfjalli (H-2), Hornafirði (H-3), Bolafjalli (H-4), Sumburgh í Skotlandi (SUM) og á Sornafelli í Færeyjum (FAE). Staðsetning þessara ratsjárstöðva gera það að verkum að ratsjárdrægi nær yfir allt Ísland og austur fyrir Færeyjar. Notkun ratsjárstöðvanna auðveldar stjórnun flugumferðar í svæðinu og gerir mögulegt að veita betri og sveigjanlegri þjónustu þar.

Íslenska flugstjórnarsvæðið skiptist í fjögur undirsvæði til að dreifa álagi við stjórnun flugumferðarinnar. Þessi svæði nefnast norður, vestur, suður og austur. Ratsjá er notuð til að stjórna flugumferð í suður- og austursvæði, en í norður- og vestursvæði er huglæg flugumferðarstjórn.

AÐFLUGSSVÆÐIÐ

Aðflugsþjónusta fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll fer fram í flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur. Aðflugssvæðið nær upp í 24.500 fet, eins og innanlandssvæðið og út í u.þ.b. 40° NM frá Keflavíkurflugvelli.