Hoppa yfir valmynd

ADS-B

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið er að hjá Isavia er innleiðing á nýrri flugleiðsögutækni í sunnanverðu flugstjórnarsvæðinu, þ.e. á Íslandi, í Færeyjum og í Grænlandi sunnan við 70°N breiddarbauginn. Um er að ræða ADS-B sem stendur fyrir Automatic Dependent Surveillance Broadcast og er kerfi þar sem flugvélar með ADS-B búnað senda frá sér GPS staðsetningu (og fleiri upplýsingar s.s. kallmerki, hæð og hraða) mjög ört. Jarðstöðvar taka á móti merkinu og skila í flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík þar sem upplýsingarnar eru birtar flugumferðarstjóra líkt og ratsjárgögn.

Kostir ADS-B framyfir ratsjárgögn eru að upplýsingar um staðsetningu flugvéla eru nákvæmari og þær berast örar (á 0,5 – 2 sek fresti á meðan ratsjá uppfærir staðsetningu vélar á 5 - 12 sek fresti). Þá er búnaðurinn sem þarf til að taka á móti ADS-B merki ódýrari en ratsjár, bæði í innkaupum og rekstri. Þar af leiðir út frá hagkvæmnissjónarmiðum að er hægt að koma ADS-B búnaði víðar en ratsjám.

Með tilkomu ADS-B getur Isavia boðið flugvélum betri þjónustu en áður. Í Grænlandi verður ekki lengur þörf á að beita úthafsaðskilnaði á milli flugvéla heldur geta flugumferðarstjórar beitt hlutlægri flugumferðarstjórn (e. tactical air traffic control) sem býður upp á hagstæðari flughæðir og flugleiðir. ADS-B þjónusta Isavia mun stytta flugtíma flugvéla í íslenska svæðinu og lækka þar með kostnað flugfélaga, en styttri flugtími þýðir minni eldsneytiseyðslu og þar með minni CO2 útblástur. Á Íslandi er unnið að uppsetningu á átta ADS-B jarðstöðvum og munu þær jarðstöðvar tryggja drægi að lágmarki 250 sjómílur frá landi. Stefnt er að því að setja upp jarðstöðvarnar á eftirfarandi fjallstoppum:

  • Bláfjöll við Reykjavík
  • Reykjanesviti á Bæjarfelli
  • Bolafjall við Bolungarvík
  • Þverfjall á milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar
  • Viðarfjall við vestanverðan Þistilfjörð
  • Gunnólfsvíkurfjall við norðanverðan Bakkaflóa
  • Háöxl við Fagurhólsmýri
  • Háfell við Vík í Mýrdal

Að auki er gert ráð fyrir fjórum jarðstöðvum í Færeyjum og tíu á Grænlandi.

Á Íslandi og í Færeyjum þýðir tilkoma ADS-B jarðstöðva meiri nákvæmni í kögunarþjónustu og jafnframt meira öryggi. Gert er ráð fyrir að notast bæði við ratsjár og ADS-B jarðstöðvar til að tryggja sem best drægi.

Í Grænlandi mun tilkoma tækninnar hins vegar umbylta flugumferðarþjónustu þar sem unnt verður að veita kögunarþjónustu fyrir leiðarflug. Samhliða uppsetningu ADS-B jarðstöðva í Grænlandi verða settir upp talstöðvasendar og móttakarar (VHF) sem tryggja bein samskipti flugumferðarstjóra við flugvélar.

Til þess að geta nýtt ADS-B þjónustu þurfa flugvélar að vera búnar ADS-B sendum sem tengdir eru við staðsetningarkerfi vélarinnar. Hlutfall véla sem sendir frá sér nothæft ADS-B merki hefur aukist jafnt og þétt síðan mælingar hófust árið snemma árs 2006. Í desember 2011 var hlutfall ADS-B véla sem fljúga í gegnum flugstjórnarsvæðið 70%. Þar eru innanlandsvélar og vélar til/frá Íslandi ekki taldar með en hlutfallið þar er lægra.