
Innleiðing ADS-B tækni er fjölþætt verkefni sem samanstendur af uppsetningu ADS-B jarðstöðva og fjarskiptabúnaðar, skilgreiningu og sannreyningu á rekstri ADS-B þjónustu fyrir flugumferðarstjórn, innleiðingu á ADS-B virkni í flugstjórnunarhugbúnaði og að veita flugsamfélaginu þær upplýsingar sem það þarfnast til að geta nýtt sér kosti ADS-B.
Innan Isavia er nú unnið að því að koma upp verklagsreglum sem nota má í flugstjórnarumhverfi sem samanstendur af flugvélum sem eru með ADS-B búnað og þeim sem ekki eru með slíkan búnað. Hægt verður að veita þeim sem hafa slíkan búnað betri þjónustu en hefur verið til þessa. Samhliða er unnið að lausnum til að sýna flugumferðarupplýsingar frá hinum ýmsu kögunarkerfum í samhæfðu tölvukerfi. Ekki er nóg að setja upp kerfið, því flugvélar verða að vera útbúnar ADS-B sendi til þess að tæknin nýtist.
Eitt af því fyrsta sem var skoðað þegar gögn tóku að berast frá fyrstu móttökurunum árið 2006 var hversu margar flugvélar í flugstjórnarsvæðinu væru búnar ADS-B búnaði af gerðinni 1090 MHz Extended Squitter. Hér fyrir neðan má sjá hvernig fjöldi flugvéla sem hefur þennan búnað hefur breyst frá því að verkefnið var sett af stað byrjun árs 2006 til dagsins í dag. Í byrjun voru um 50% flugvéla í íslenska flugstjórnarsvæðinu búnar þessum búnaði en í dag eru þær að nálgast 90%. Fjöldi flugvéla með vottaðan ADS-B búnað sem gæti nýtt sér kerfið þegar í stað er orðinn 70%. Þessi fjöldi flugvéla réttlætir innleiðingu ADS-B kerfisins og hefur Isavia því hafist handa við verkefnið.

Innleiðing ADS-B víða um heim
Innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Eurocontrol hefur verið unnið að því að setja reglur um hvernig nota megi ADS-B til kögunarþjónustu í stað hefðbundinna ratsjáa. ADS-B innleiðingarverkefni eru víða í fullum gangi og komin vel á reikispöl, t.d. er verið að setja upp jarðstöðvar um gervöll Bandaríkin. Helstu forkólfar ADS-B eru Ástralir en þar hefur verið rekið ADS-B kögunarþjónusta í nokkur ár en auk þeirra eru Kanadamenn framalega, en síðan 2009 hefur ADS-B þjónusta verið veitt í Hudson Bay. Öll þessi verkefni munu enn frekar reka á eftir flugrekendum að búa flugvélar sínar ADS-B búnaði. Í ljósi þessa lagði Isavia til verkefnisáætlun um uppsetningu á ADS-B kerfi fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina. Gert er ráð fyrir að kerfið muni veita ADS-B þjónustu á stóru svæði þvert yfir norðanvert Norður-Atlantshaf. Um er að ræða alls 18 stöðvar sem verða staðsettar á Íslandi, í Færeyjum og í Grænlandi.
Veitendur flugumferðarþjónustu í Evrópu eru flestir ef ekki allir að innleiða ADS-B í sitt kögunarkerfi. Frá og með 8. janúar 2015 verður skylda að útbúa allar nýjar flugvélar sem geta vegið 5.700 kg eða meira eða fljúga hraðar en 250 hnútar með ADS-B sendi í Evrópu. Og frá og með 7. desember 2017 skulu allar eldri vélar sem fljúga í Evrópu og falla undir ofangreind skilyrði einnig vera komnar með ADS-B sendi. Í Bandaríkjunum hefur FAA sett þá reglu að frá með 1. janúar 2020 skuli allar flugvélar sem fljúga í loftrýminu sem nú krefst ratsjársvara (e. transponder) vera búnar ADS-B búnaði.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið sett á slík skylda yfir Atlantshafinu eða á Íslandi er fyrirsjáanlegt að stærsti hluti véla sem fljúga í íslenska svæðinu verði með ADS-B sendi þar sem þær eru þá að fljúga annað hvort í Evrópu eða Bandaríkjunum.